- Advertisement -

Því er samfélagið svona grimmt

Gunnar Smári Egilsson.

Gunnar Smári skrifar: „Ég hef brotnað niður og misst fótanna oftar en einu sinni. Ég kom illa nestaður út úr æsku minni, ég var reiður og upplifði mig svikinn. Ég var markeraður af uppeldinu og ég ber enn mörk eftir það. Ég má við litlu, verð að búa við öryggi og finna fyrir ást og samfélagi. Ég þoli illa mótlæti. Ég er því varla hæfur til að vera á íslenskum húsnæðismarkaði, hann hefur oftar en einu sinni kippt fótunum undan mér. Ef ég næ að styrkja mig og ná betra jafnvægi langar mig burt. Kannski til Noregs,“ segir Sigurður Ívar Sölvason, sem leigir litla blokkaríbúð á Akureyri. Hann er Reykvíkingur, en skolaði á land á Akureyri. Og þakkar fyrir það í dag. Eftir að hafa verið heimilislaus í bænum fann hann samfélag innan Hjálpræðishersins.

Bankakerfið er ómanneskjulegt

„Fólk tók mér eins og ég er í hernum,“ segir Sigurður. „Hjálpræðisherinn hefur alla tíð rétt hjálparhönd til þeirra sem eiga sér ekkert skjól. Og ef þú ert heimilislaus í ókunnum bæ, þá hefurðu beðið marga um hjálp og margir sagt nei. Það er ekki bara bankakerfið sem er ómanneskjulegt hjá okkur. Heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið er það líka. Þú ferð þar í gegnum færiband og ef þú passar ekki inn í er þér bara hent. Í hernum tók fólk hins vegar á móti mér og dæmdi mig ekki. Mér var tekið sem manneskju og ég var jafngóður og allir aðrir, ekki betri og alls ekki verri.“

Dauðinn tók Sölva

Saga Sigurðar er átakamikil, hann átti erfiða og sársaukafulla æsku. Andleg veikindi móður hans settu sterkan svip á fyrstu árin. Þegar foreldrar hans skyldu varð eldri systir hans eftir hjá móðurinni, en hann flutti út með föður sínum og varð hluti af nýrri fjölskyldu hans þegar faðir hans giftist aftur og eignaðist fleiri börn. En samt ekki. Sigurður upplifði sig einangraðann í nýrri fjölskyldu. Góðu stundirnar voru þegar þeir feðgar voru einir saman. Þá var Sigurður öruggur, hann efaðist aldrei um ást föður síns, leit upp til hans og dáði. Svo tók dauðinn Sölva. Sigurður var aðeins fjórtán ára og Sölvi enn ungur maður, 38 ára. Sigurður var að koma heim þegar hann sá sjúkrabíl fyrir utan. Það hafði sprungið æð í höfðinu á Sölva og hann dó skyndilega, var allt í einu ekki til. Sigurður horfði á sjúkraflutningamennina reyna að ná honum til baka, en hann kom ekki.

Dauðinn er ömurleg skepna, ósanngjörn, miskunnarlaus skepna. En reiðin beindist að öllu í kringum Sigurð, honum fannst hann svikin af lífinu, ekkert síður en dauðanum.

Dauðinn er ömurleg skepna

Við getum náttúrlega ekki ímyndað okkur hvaða áhrif þetta hafði á Sigurð. En hann segist hafa fyllst reiði sem hann réð ekki við. Dauðinn er ömurleg skepna, ósanngjörn, miskunnarlaus skepna. En reiðin beindist að öllu í kringum Sigurð, honum fannst hann svikin af lífinu, ekkert síður en dauðanum. „Ég myndi ekki vilja umgangast mig eins og ég var þá,“ segir hann, „fósturmóðir mín réð ekkert við mig og ég var fullur af heift, gat ekki rætt við neinn um hvernig mér leið og fékk enga leiðsögn um hvað ég ætti að gera, hver ég var og hvernig ég gat sefað sársaukann sem var að brenna mig að innan.“ Móður hans var boðið að taka við honum en hún hafnaði því. Sigurður hafði misst föður sinn og var hafnað af móður sinni.

Sextán ára að heiman

Sigurður fór að heiman þegar hann var sextán ára. Hann bjó á götunni um tíma, systir pabba hans tók hann að sér en gafst upp eftir ár. „Ég drakk illa, reyndi að sefa mig með eiturlyfjum en það gekk ekki,“ segir Sigurður. „Tvítugur var ég kominn inn á Vog.“

Karlotta Sjöfn

Sigurður segist þá hafa tekið ákvörðun; hann varð að læra að lifa eins og venjuleg manneskja. Hann þurfti að læra að vera góður maður, hætta að vera reiður unglingur. Og hann kynnist stúlku, þau kaupa íbúð og eignast fallega dóttur, Karlottu Sjöfn. Þau búa í Dúfnahólum 4, eru hamingjusöm ung fjölskylda. En það koma brestir í sambandið og þau skilja eftir nokkur ár, reyna að gera það eins vel og mögulegt er svo Karlotta þurfi ekki að líða fyrir ágreining foreldra sinna.

Dauðinn er ömurleg skepna, ósanngjörn, miskunnarlaus skepna. En reiðin beindist að öllu í kringum Sigurð, honum fannst hann svikin af lífinu, ekkert síður en dauðanum.

Íbúðin á uppboð

Og lífið heldur áfram. Þau selja íbúðina og nokkrum misserum síðar er Sigurður kominn í sambúð með annarri konu, þau giftast og kaupa íbúð. Það er árið 2007. Ári síðar kemur Hrunið; lánin hækka, launin lækka og allt í einu eiga þau ekkert eftir þegar búið er að borga afborganir, álagið grefur undan sambandinu, þau skilja og Sigurður er nú eina fyrirvinna, hann hefur enga möguleika til að standa í skilum. Íbúðin fer á uppboð 2010, Sigurður hafði keypt hana á 24 milljónir og lagt til ágætan höfuðstól. Nú á hann ekkert en situr uppi með 23 milljón króna skuld við gamla Landsbankann og er á götunni.

Var algjörlega vonlaus

„Þarna var ég sokkinn niður í djúpt þunglyndi, kvíðinn og gat ekki horft framan í nokkurn mann. Ég var algjörlega vonlaus, lifði í þykku myrkri,“ segir Sigurður. Amma vinkonu hans sá aum af honum og leigði honum litla íbúð í Mosfellsbæ. „Hún var góð við mig, gamla konan, en ég var algjör rúst. Ég fór varla út í tvö ár. Þessi litla íbúð var hellirinn sem ég skreið inn í.“

Réð ekki við skuldina

Til að afla einhverra tekna fór Sigurður að keyra leigubíl. Hann skreið út úr hellinum og inn í bílinn og harkaði á nóttinni fyrir annan bílstjóra. Smátt og smátt treysti hann sér til að keyra meira og hann notaði aksturinn til að komast í gang, krafsa sig upp. Hann fékk sitt eigið leyfi og frændi hans aðstoðaði hann við að kaupa bíl, Sigurður var orðinn sjálfstæður leigubílstjóri. Og hann vann allan sólarhringinn; borgaði meðlagsskuldir og alls konar lausaskuldir sem höfðu safnast upp meðan hann var inn í hellinum. En hann réð ekki við skuldina við gamla Landsbankann. Og vegna hennar gat hann ekki sjálfur verið skráður fyrir bílnum. Þar sem hann missti íbúð í hruninu varð hann að lifa að stóru leyti utangarðs, frændi hans var skráður fyrir bílnum og hann leigði líka íbúð af frændanum. En þrátt fyrir allt var hann að lifna við, hann vann auðvitað allt of mikið, en hann var kominn með heimili og gat boðið dóttur sinni að búa hjá sér.

Var ekki í góðu jafnvægi

„Það hafði alltaf verið draumur okkar að hún flytti til mín þegar hún færi í menntaskóla,“ segir Sigurður, „og ég var óendanlegur hamingjusamur daginn þegar hún flutti inn. Ég var ekki í góðu jafnvægi, hafði unnið allt of mikið og lifað einhæfu þrúgandi lífi, en mér hafði tekist að láta þennan draum okkar rætast. Ég hef alltaf reynt að standa mig gagnvart Karlottu, ég elska hana meira en allt í lífinu og er aldrei hamingjusamari en þegar ég finn að hún elskar mig á móti.“

Ég leystist upp

En svo var íbúðin sem Sigurður leigði sett á sölu og seldist strax. Hann var orðinn heilsulaus af mikilli vinnu, gat ekki keyrt eins mikið og áður og fann enga þriggja herbergja íbúð undir 200 þúsund krónur á mánuði. Og mánuðina á undan hafði hann of miklar tekjur til að fá húsaleigubætur á móti. Sigurður áttaði sig á að hann réð einfaldlega ekki við að leigja íbúð fyrir þau feðginin. „Ég sagði Karlottu frá þessu og hún sagðist skilja þetta og sagðist elska mig samt. Hún flutti til ömmu sinnar. En ég leystist bara upp.“

. Sigurður rataði inn á samkomu hjá Hjálpræðishernum og fann þráð sem hann hefur verið að rekja sig eftir síðan þá. Hann afgreiðir í búð sem selur rafrettur og tilheyrandi og sinnir æskulýðsstarfi innan Hjálpræðishersins.

Á samkomu hjá Hjálpræðishernum

Sigurður segist hafa elt stelpu sem hann var í sambandi við norður á Akureyri, en hann var ekki í neinu standi til að vera í sambandi, endaði sem heimilislaus maður fyrir norðan. Og þá erum við komin þar sem frásögnin byrjaði. Sigurður rataði inn á samkomu hjá Hjálpræðishernum og fann þráð sem hann hefur verið að rekja sig eftir síðan þá. Hann afgreiðir í búð sem selur rafrettur og tilheyrandi og sinnir æskulýðsstarfi innan Hjálpræðishersins. „Ég hugsaði hvenær mér hafði liðið best í lífinu,“ segir Sigurður. „Það var þegar ég bjó með barnsmóður minni í Dúfnahólum, Karlotta var nýfædd og ég vann með börnum. Það var besti tími lífs míns og mig langar að finna þessa hamingju aftur. Þess vegna vinn ég með börnum í dag.“

Við erum mörg markeruð

Sigurður segist upplifa sig svikinn af samfélaginu. „Ég ber náttúrlega með mér þessa tilfinningu úr æskunni, að vera svikinn af móður minni og hafa verið skilinn eftir af föður mínum. Ég losna aldrei við þessa tilfinningu að fullu, ég reyni að lifa með henni, reyni að læra að lifa með henni,“ segir Sigurður. „En ég er svona. Og er örugglega ekki sá eini sem kem brotinn út úr æskunni. Við erum mörg markeruð af áföllum í æsku. Ég er viðkvæmur og má við litlu, en það eru margir eins og ég. Við þurfum að glíma við þetta alla okkar ævi. En eins og það sé ekki nóg, þá þurfum við gera það á húsnæðismarkaði sem er alltaf að kippa undan okkur fótunum, hvort sem við séum að reyna að kaupa eða leigja. Ég hef sokkið ofan í þunglyndi og kvíða, sokkið ofan í hyldýpið. Og þegar mér svo tekst að skjóta upp kollinum er oft eins og mér sé ýtt aftur niður, af einhverju afli sem vill ekki að fólk eins og ég finni til öryggis og skjóls. Ég skil ekki hvers vegna þetta þarf að vera svona. Hvers vegna þarf samfélagið að vera svona grimmt? Auðvitað er til vont fólk, en flest fólk sem ég hef kynnst er gott fólk, rausnarlegt og með hlýtt hjarta. Hvers vegna þarf þá samfélagið að ganga fyrir ómannúðlegum reglum og grimmd? Ég bara skil það ekki.“

„Hvers vegna þarf þá samfélagið að ganga fyrir ómannúðlegum reglum og grimmd? Ég bara skil það ekki.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: