- Advertisement -

Verkafólk sem býr í einu herbergi

Verbúð er ekki heimili. Verbúð er eiginlega ekki mönnum bjóðandi. Við áttuðum okkur á því fyrir mörgum áratugum og vorum búin að útrýma verbúðum að mestu.

Gunnar Smári skrifar: „Við komum til Íslands til að vinna fyrir skuldum. Heima í Póllandi þurftum við að borga meira en helminginn af laununum okkar í lánin af húsinu. Og það var erfitt að lifa af því sem eftir var. Við lifðum og unnum til að borga af láninu, gerðum ekkert annað,“ segir Leszek Rolewicz, sem býr ásamt Malgorzata, eiginkonu sinni, í litlu herbergi á efri hæð bárujárnshúss við Fjarðarstræti á Ísafirði. Þau deila íbúð með þremur verkamönnum.

Þau eru ánægð í vinnunni, glöð yfir að hafa tekið ákvörðun um koma til Íslands og finnst sanngjarnt að borga 25 þúsund krónur á mánuði fyrir herbergið. Þau myndu hins vegar kjósa að geta búið ein út af fyrir sig í eigin íbúð, eiga heimili.

Þetta er verbúð í eigu vinnuveitenda Leszek. Hann er plötusmiður en vinnur hjá verktaka við smíðar en Malgorzata vinnur í fiski í Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal. Þau eru ánægð í vinnunni, glöð yfir að hafa tekið ákvörðun um koma til Íslands og finnst sanngjarnt að borga 25 þúsund krónur á mánuði fyrir herbergið. Þau myndu hins vegar kjósa að geta búið ein út af fyrir sig í eigin íbúð, eiga heimili.

„Við höfum spurst fyrir en það virðist ekki vera neitt húsnæði á lausu á Ísafirði,“ segir Leszek, „alla vega ekkert sem við höfum efni á.“ Mynduð þið flytja í litla íbúð ef þið fengjuð hana á 60 þúsund krónur, svo dæmi sé tekið? „Já, strax,“ segir Leszek, „líka þótt hún kostaði 100 þúsund krónur á mánuði. Það er ekki gott líf fyrir hjón að búa í einu herbergi innan um aðra. Við erum engin unglömb, við höfum verið gift lengi og myndum vilja búa okkur heimili hérna á Ísafirði.“

Þú gætir haft áhuga á þessum
Þrátt fyrir að íbúum Ísafjarðarbæjar hafi fækkað á umliðnum árum er skortur á leiguhúsnæði í sveitarfélaginu, eins og svo víða um land.

Margir búa í verbúð

Þrátt fyrir að íbúum Ísafjarðarbæjar hafi fækkað á umliðnum árum er skortur á leiguhúsnæði í sveitarfélaginu, eins og svo víða um land. Og það er orðið æ algengara að verkafólk sem flytur til landsins til að vinna í fiski, fiskeldi, við byggingar eða túrisma búi í verbúð eða í húsnæði í eigu launagreiðandans. Það býr við sambærilegar aðstæður og í því sem kallað var company town á síðustu öld, bæjum sem byggðir voru í kringum eina verksmiðju og þar sem eigandi verksmiðjunnar réð öllu. Sá sem missti vinnuna, missti við það húsnæðið og var í raun brottrækur úr bænum. Á síðustu árum hafa komið inn á borð verkalýðsfélaga mörg dæmi þar sem fólk hefur misst vinnuna og við það húsnæðið, staðið skyndilega uppi atvinnulaust og húsnæðislaust. Þetta á ekki aðeins við um Vestfirði, heldur hafa fyrirtæki um allt land brugðist við húsnæðiskreppunni með því að kaupa eða byggja húsnæði fyrir starfsfólk. Fyrirtækin hafa brugðist við aðgerðarleysi ríkis og sveitarfélaga, sem eiga að hafa þá höfuðskyldu að tryggja íbúum viðunandi húsnæði. En við það að fyrirtækin bregðist við flytjast húsnæðismál fjölda fólks frá samfélaginu til fyrirtækja, frá rými þar sem almannaréttur á að gilda yfir á svæði þar sem einkaréttur eiganda fyrirtækjanna ríkir yfir öllu.

Leszek og Malgorzata komu fyrst til Íslands árið 2006, fengu vinnu á Ísafirði eins og nú. Dóttir þeirra var þá aðeins tólf ára og bjó á meðan hjá ömmu sinni í Ełk í austurhluta Póllands, upp við úkraínsku landamærin. Þrátt fyrir að þau fengju mun hærri laun á Ísafirði en í Póllandi þoldi Malgorzata ekki við, hún saknaði dóttur sinnar og fór heim til Póllands eftir sex mánaða dvöl. Leszek hélt útlegðina út þar til Hrunið skall á Íslandi og vinnan gufaði upp. Síðan hafa þau unnið hörðum höndum í Ełk til að halda húsinu sínu.

„Ef okkur tekst að borga upp lánið og eignast húsið skuldlaust getum við búið við meira öryggi og notað launin í annað en að borga lánið. Við höfum þá líka eitthvert öryggi í ellinni.“

Himinn og haf á milli

Laun í austurhluta Póllands eru lág, aðeins um 45 þúsund íslenskar krónur á mánuði. Og þegar meira en helmingur launanna fer til bankans er lítið eftir til að lifa af. Þegar dóttir þeirra giftist og færði þeim fyrsta barnabarnið ákváðu þau hjónin að gera aðra tilraun til að vinna niður skuldirnar. Þau banda frá sér höndunum aðspurð um hver sé munurinn á laununum á Íslandi og í Póllandi. „Það er ekki hægt að bera þetta saman. Það er himinn og haf á milli,“ segja þau.

Sakna margs

Leszek og Malgorzata sjá fyrir sér að búa og starfa á Ísafirði í nokkur ár, alla vega fimm. Þau vilja ekki snúa aftur fyrr en þau hafa greitt upp lánið á húsinu. „Það er ekki hægt að skulda og vinna lágt launuð störf í Póllandi,“ segja þau. „Ef okkur tekst að borga upp lánið og eignast húsið skuldlaust getum við búið við meira öryggi og notað launin í annað en að borga lánið. Við höfum þá líka eitthvert öryggi í ellinni.“ Dóttir þeirra og hennar nýja fjölskylda býr nú í húsinu. Það er fullt af lífi, sem þau Leszek og Malgorzata sakna.

Innflytjendum fjölgar

Það eru margir innflytjendur á Ísafirði, um 15 prósent íbúanna, svipað og meðaltalið á landinu öllu. Innflytjendur hafa lengi verið verið mikilvægur kraftur á öllum Vestfjörðum. Frá árunum fyrir aldamót hefur íbúum Ísafjarðarbæjar fækkað um meira en þúsund manns, eru í dag rúmlega 3600. Á sama tíma hefur innflytjendum fjölgað úr 250 í rúmlega 525. Án þeirra hefði íbúunum fækkað enn meir. Það er mest fólk á besta aldri sem flytur til Ísafjarðar, fólk sem gengur beint í vinnu. Án innflytjenda væri aflið í bænum miklum mun minna.

Ef ekki væri hægt að fella sófann saman kæmist fátt annað inn í herbergið en eitt rúm.

Á jarði samfélagsins

Pólverjar tóku að flytja til Vestfjarða á síðustu áratugum síðustu aldar. Þar er hópur Pólverja sem hefur búið á Íslandi áratugum saman, önnur kynslóð hefur alist hér upp og sú þriðja er mætt til leiks. Þetta fólk býr við líkar aðstæður og flestir Vestfirðingar, það tilheyrir ekki efstu lögum samfélagsins, en býr við lík kjör og önnur alþýða manna. En þeir Pólverjar sem hafa komið síðustu árin verða fyrir húsnæðiskreppunni og að sumu leyti harðari vinnumarkaði líka. Leszek og Malgorzata tilheyra þeim hópi. Þau eru á jarði samfélagsins og komast ekki innar, fyrst og fremst vegna skorts á boðlegu húsnæði sem fólk á lágum launum ræður við. Þau búa tvö í einu herbergi, þar sem er fátt annað inni en svefnsófi. Ef ekki væri hægt að fella sófann saman kæmist fátt annað inn í herbergið en eitt rúm.

„Þeir eru óttalegir sóðar.“

En hvernig gengur sambúðin við karlana sem þau deila með íbúðinni? „Þeir eru óttalegir sóðar,“ segir Leszek og fitjar upp á nefið. Þau sem einhverju sinni hafa búið í verbúð vita hvað hann meinar. Verbúð er ekki heimili. Verbúð er eiginlega ekki mönnum bjóðandi. Við áttuðum okkur á því fyrir mörgum áratugum og vorum búin að útrýma verbúðum að mestu. En svo hafa þær rokið upp aftur á síðustu árum, eru afkvæmi húsnæðiskreppunnar sem ríkir og dregur niður lífskjör og lífsgæði hinna lægst launuðu.

Á næstu dögum munu fleiri leigjendur segja sögu sína undir yfirskriftinni Leigjendur rísa upp. Samtök leigjenda á Íslandi minna á aðalfund samtakanna í Borgartúni 1 29. september kl. 14:00 #leigjendurrísaupp!

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: