- Advertisement -

Við munum halda ótrauð áfram

Drífa Snædal, forseti ASÍ, skrifar:
Í tilefni frétta dagsins vil ég segja þetta: Um leið og þetta ástand sem nú ríkir vegna heimsfaraldurs skapaðist virkjaði ég samninganefnd ASÍ og fundar nefndin daglega í gegnum fjarfund. Það er vettvangurinn til að ræða opinskátt og í trúnaði allar mögulegar og ómögulegar hugmyndir, taka stöðuna sem breytist dag frá degi og ráða ráðum okkar. Þetta er verðmætur lýðræðisvettvangur sem skapar grunn fyrir sameiginlegar ákvarðanir jafnvel þótt fólk sé ekki alltaf sammála. Þær tillögur sem nú er deilt um og ganga út á skerðingar á réttindum launafólks úr lífeyrissjóðum voru til umræðu þar en um þær voru afar skiptar skoðanir. Það er varasamt að skerða réttindi launafólks úr lífeyrissjóðum til allrar framtíðar. Það má vel gagnrýna lífeyrissjóðakerfið en ég mun standa vörð um þann rétt sem vinnandi fólk hefur áunnið sér eins og nokkur kostur er, enda er lífeyririnn sennilega með mikilvægari réttindum sem fólk á. Það er freistandi að fara sífellt inn í lífeyrisréttindin til að leita lausna við tímabundnum vanda en þeim mun mikilvægara að hreyfingin standi í lappirnar.

Það er varasamt að skerða réttindi launafólks úr lífeyrissjóðum til allrar framtíðar.

Ég held mig við það sem ég hef hingað til sagt: Ef á að krukka í réttindum vinnandi fólks þá þarf það að gerast í stærra samhengi, í samráði og samtali við opinbera markaðinn, atvinnurekendur og stjórnvöld. Ef farið er inn í kjarasamninga verða hagsmunir launafólks að vera tryggðir með öðrum hætti og þeim bætt upp skerðingin. Þetta er mitt viðhorf og það hefur ekki breyst síðustu vikur.

Sterk verkalýðshreyfing er gríðarlega mikilvæg um þessar mundir eins og alla jafna á krísutímum. Ég harma úrsagnir úr miðstjórn ASÍ enda er samstaða hreyfinga launafólks ein af grunnforsendum þess að staðinn sé vörður um kjör almennings. Við munum halda ótrauð áfram í þeim risaverkefnum sem við erum að glíma við.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: