- Advertisement -

Vinnan á hug minn allan

Fólkið í Eflingu, texti og mynd: Alda Lóa. „Áður en ég byrjaði hérna á hótelinu þá vann ég hjá kjötiðnaðarfyrirtæki í tvö ár. Það var mjög kalt í sláturhúsinu, ég var ein frá Filippseyjum að vinna hjá fyrirtækinu en hinir starfsmennirnir voru annarsstaðar frá og mér leið alltaf eins og ég væri ekki hluti af hópnum. Vaktirnar voru frá fimm til fimm, tólf tíma vaktir eins og hérna og 50 yfirvinnutímar, launin voru lægri en hér, ég fékk borgað rúmlega 200.000 krónur. Þetta var árið 2014 en líklega hefur kaupið eitthvað hækkað síðan þá. Hér byrjaði ég í morgunmatnum fyrir þrem árum og mæti á sama tíma og ég gerði í sláturhúsinu, klukkan fimm á morgnanna.

Ég slekk á símanum á kvöldin og allir vita að ég er sofnuð klukkan átta og það er ekki hægt að ná sambandi við mig. Þegar ég vakna þá hendi ég mér í sturtu og upp í bíl og keyri í vinnuna, ég er ánægð hérna og vinnan tekur hug minn allan. Við erum fimm sem leigjum saman og sambúðin gengur vel og ég er sléttar sjö mínútur að keyra heim úr vinnunni.

Yfirmaðurinn minn kom til mín og bað mig um að gerast vaktstjóri yfir kalda eldhúsinu. Mér fannst ég ekki vera tilbúin til þess að taka alla þessa ábyrgð og mér fannst ég ekki hafa það í mér að stjórna einum né neinum og hvað þá hópi fólks. Þá var þrýst á mig úr öllum áttum og þau gáfust ekki upp fyrr en ég tók starfinu. Þau segja að ég sé ábyrgðarfull og vinni af ástríðu og að þessir eiginleikar skili sér vel inn í hópinn og geri mig að góðum hópstjóra. Líklega er ég ekki með mikið sjálfstraust, mig langar til dæmis að klára 3. stig í íslensku, ég er búin með 1. og 2. stig en mér finnst ég aldrei vera orðin nægilega góð í tungumálinu til þess að taka þetta 3. stig og ljúka því.“

Myra Balayong er vaktstjóri í kalda eldhúsinu og félagi í Eflingu. #fólkiðíeflinguSjá fleiri sögur um fólkið í Eflingu: http://folkid.efling.is/

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: