- Advertisement -

Vinstri græn setja heimsmet

Fyrir lakast setta fólkið kemur ekki á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn vinni gegn þeirra hagsmunum. Framsókn er eins og Framsókn er. En að Vinstri græn gæti ekki hagsmuna þessa fólks er sérstakt.

Í nýrri skýrslu Stefáns Ólafssonar og Stefáns Arnar Stefánssonar kemur fram staðfesting á heimsmeti í skerðingum gegn okkar verst setta fólki. Það er bara ekkert annað.

Af hverjum 50.000 kr. sem einhleypir  lífeyrisþegar fá aukalega úr lífeyrissjóði renna aðeins um 13.370 kr. til lífeyrisþegans en 36.600 kr. til ríkisins í gegnum skerðingar og skatta séu tekjur lífeyrisþega úr lífeyrissjóði á bilinu 100.000 til 600.000 kr. Um 70-80% af ábatanum rennur þannig til ríkisins en ekki í vasa lífeyrisþega.

Í nýrri skýrslu Stefáns Ólafssonar og Stefáns Andra Stefánssonar fyrir Eflingu-stéttarfélag, Kjör lífeyrisþega – Samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða í mótun tekna, kemur fram að skerðingar í almannatryggingakerfinu á Íslandi séu óhóflegar og fari nærri því að vera heimsmet. Miklar skerðingar koma meðal annars fram í því að útgjöld hins opinbera vegna lífeyrisgreiðslna eru óvenju lág eða þau fimmtu lægstu meðal OECD-ríkjanna. Önnur afleiðing er að á bilinu 25 til 50% íslenskra lífeyrisþega glíma við lágtekjuvanda, eftir því hvar lágtekjumörkin eru dregin.

Lágtekjuvandinn er algengari meðal þeirra sem hafa starfað lengst af á almennum markaði, enda eru réttindi þar lakari en í lífeyrissjóðum í opinbera geiranum. Þá eru færð ýmis rök fyrir því í skýrslunni að hámarkslífeyrir almannatrygginga (TR) sé of lágur.

Með óvenju harkalegum skerðingum skera Íslendingar sig talsvert frá hinum Norðurlandaþjóðunum og líkist íslenska velferðarkerfið fremur engilsaxneskum velferðarkerfum en þeim norrænu hvað þetta snertir.

Lágt frítekjumark, sérstaklega gagnvart lífeyrissjóðstekjum, þýðir að skerðingar greiðslna almannatrygginga byrja við of lágar greiðslur frá lífeyrissjóðum. Það felur m.a. í sér að skyldusparnaður í lífeyrissjóðum skilar sér ekki nægilega til kjarabóta fyrir lífeyrisþega heldur fer til lækkunar á útgjöldum ríkisins til almannatrygginga. Algengt er að skerðingar lífeyris almannatrygginga nemi meira en helmingi af því sem viðkomandi fá úr lífeyrissjóðum, en það samsvarar því að nær öll langtímaávöxtun lífeyrissjóðanna renni til ríkisins.

Þá leggur ríkið um 20-26% tekjuskatt til viðbótar ofan á greiddan lífeyri, þannig að í reynd fer um 70-80% af auknum tekjum frá lífeyrissjóðunum til ríkisins en minnihlutinn til kjarabóta lífeyrisþeganna. Skattbyrði lífeyrisþega með lágar heildartekjur hefur einnig stóraukist á síðustu áratugum. Vegna óhóflegar skerðinga og skatts á lágar lífeyristekjur má segja að ríkið sé helsti lífeyrisþegi lífeyrissjóðanna, þó með óbeinum hætti sé.

Í skýrslunni eru fram lögð margvísleg gögn um virkni tveggja meginstoða lífeyriskerfisins (almannatrygginga og lífeyrissjóða) og sýnt fram á hvernig kjörum kerfið skilar lífeyrisþegum nútímans sem og þeim sem fara á lífeyri á næstu árum. Á grundvelli þeirra greininga sem gerðar eru í skýrslunni er lagt til að frítekjumark gagnvart lífeyrissjóðstekjum verði hækkað í minnst 100.000 kr. á mánuði og að hámarks lífeyrir frá TR (óskertur lífeyrir einstaklings sem býr einn) hækki úr 333.258 í 375.000 kr. á mánuði og samsvarandi fyrir sambúðarfólk. Þá er einnig lagt til að lífeyriskjör öryrkja og ellilífeyrisþega verði samræmd, sem og að frítekjumark vegna atvinnutekna verði aldrei lægra en sem nemur lágmarkslaunum á vinnumarkaði.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar segir þróunina til skammar. „Stjórnvöld ættu að skammast sín fyrir að seilast sífellt lengra ofan í vasa minnst megandi lífeyrisþega á sama tíma og skattbyrði hátekjufólks á vinnumarkaði og utan hans fer lækkandi,“ segir hún og hvetur valdhafa til að rétta hlut lágtekju lífeyrisþega umsvifalaust. „Skömmin er þverpólitísk og ábyrgðin á því að snúa þróuninni við og rétta hag aldraðra og öryrkja  er allra.“



Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: