En Joe Biden var þannig margminntur á að það eru ekki alltaf jólin í Hvíta húsinu, þótt Donald Trump virtist hafa það á tilfinningunni, „enda jólasveinn“ hugsaði Biden upphátt.
Úr Reykjavíkurbréfi Moggans.
Sumum finnst kominn tími á að Mogginn slappi af í sumum málum. Reykjavíkurbréfið þessa helgina er þannig. En er verið að gera lítið úr Joe Biden og hlaða hinn lofi. Ég birti hér einn kafla úr bréfi Davíðs, sem lítið sýnishorn af því sem hann setur á blað:
„Biden og Kamala Harris komu sér saman um að það mætti varla kveikja á sjónvarpi, þá væri Donald Trump þar að derra sig, og skipti ekki máli hvort kveikt væri á tækjunum kvölds eða morgna. Þá var hitt lítið betra, að samfelldur gestagangur væri í Hvíta húsinu og hver ráðamaður af öðrum, innlendir sem útlendir, bæði um að mega koma og kyssa skóna, og væru þeir í Evrópu sérlega ýtnir um pláss sem fyrst, enda væri það ekki gott ef það fréttist að þeir hefðu lent mjög aftarlega í röðinni.
En Joe Biden var þannig margminntur á að það eru ekki alltaf jólin í Hvíta húsinu, þótt Donald Trump virtist hafa það á tilfinningunni, „enda jólasveinn“ hugsaði Biden upphátt.
En þetta fer ekki alltaf vel. Þannig reið Trump ekki feitum hesti frá opnum fundi með Selenskí, forseta Úkraínu, sem Trump hafði tilkynnt, samkvæmt fréttum, að væri einræðisherra í landi sem Pútín, vinur hans (Trumps), væri langt kominn með að sprengja í þær tætlur að varla stæði þar nú steinn yfir steini. Þessum nýja forseta Bandaríkjanna varð það á að hafa tugi blaðamanna í „Oval Office“ sem aldrei mætti treysta yfir þröskuld, eins og sannaðist þarna. Biden hefði haft vit á því að tala bara við einn eða tvo blaðamenn á leið sinni út í þyrluna. Þeir öskruðu eitthvað sem Biden heyrði ekki, en giskaði á eitthvað og æpti á móti sem blaðamennirnir heyrðu ekki heldur. Þetta var snilldaraðferð, sem hann var stoltur yfir að hafa fundið upp sjálfur.
Krútsjoff, þá aðalritari í Kreml, gaf Úkraínumönnum Krímskagann.
DO.
Trump gat þess síðast að Selenskí væri við það að starta þriðja kjarnorkustríðinu, en þó á Úkraína engin kjarnavopn svo Biden muni, því að Rússar og Bandaríkjamenn sameinuðust um það að hafa af þeim öll kjarnorkuvopn áður en þeir fengju að stofna til sjálfstæðs ríkis, sem Rússar virðast hafa talið að væri eðlileg gamansemi, eins og þegar Krútsjoff, þá aðalritari í Kreml, gaf Úkraínumönnum Krímskagann, sem hann meinti að sjálfsögðu ekkert með, enda taldi hann að enginn maður tæki svoleiðis tal alvarlega. Enda var það svo að þegar aðalritarinn vaknaði seint næsta morgun áttaði hann sig á því að hann hefði eins getað gefið Trump Krímskaga (Trump sem þá var ekki til, nema að nafninu til, og var þá reyndar demókrati, svo að flestir geta séð hversu djúpt allir voru sokknir það kvöld, nema Trump, sem var þar ekki þá, eins og fyrr sagði, en hafði að auki aldrei smakkað vín og hefur ekki bætt úr því síðar fremur en öðru).“
Þetta er með hreinum ólíkindum. Getur enginn tekið DO eintali og fengið hann til slappa af og helst af öllu að fara í langa fríið?