- Advertisement -

Það var ég, virðulegi forseti, sem gólaði

„Ég vona líka að ég fái að tala í friði hér í þingsal án þess að háttvirtir þingmenn Helga Vala Helgadóttir og Halldóra Mogensen séu gólandi á mig trekk í trekk. Það er algjörlega óþolandi, virðulegur forseti, að þetta fólk, þessir þingmenn, komist upp með það nánast í hvert einasta skipti sem ég stend hér,“ sagði Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki, ósáttur í ræðustól Alþingis.

Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati kvaddi sér hljóðs:

„Ásmundur Friðriksson kvartaði yfir góli tveggja háttvirtra þingmanna en það var hvorugur þeirra sem gólaði. Það var ég, virðulegi forseti, sem gólaði hér. Ég gólaði mjög málefnalega, og að mínu mati vel, um efnið, enda var háttvirtur þingmaður stiginn niður úr pontu. Ég skil vel að þetta hafi farið fyrir brjóstið á honum, að ég hrópi upp orð, áróður, sem hann nefndi sjálfur í ræðu, en ég gerði það ekki til að grípa fram í fyrir honum og ég greip ekki fram í fyrir honum,“ sagði Helgi Hrafn.

Brynjar Níelsson sat í forsetastóli og blandaði sér í umræðuna:

„Forseti vill benda á að þegar háttvirtir þingmenn fara í andsvar með spurningu er eðlilegt að á það sé bent að spurningin varði það mál sem er til umræðu. Hvorki SÁÁ né fyrri atkvæðagreiðslur voru hér til umræðu. Það er eðlilegt þegar notaður er réttur til andsvars að það sé þá um efnið. Það var eingöngu ábending forseta.“

„Hin ábendingin sem ég vil koma á framfæri er að þegar virðulegur forseti gerir athugasemdir við að þingmenn séu ekki að ræða það sem er á dagskrá eða til umræðu hverju sinni er hann óhjákvæmilega að fara inn á frekar hættulega braut og hún er sú að draga úr málfrelsi þingmanna,“ sagði Helgi Hrafn.

„Það er sá staður þar sem þingmenn geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri um þau mál sem eru til umræðu. Það er alvanalegt, og vil ég meina að hér fari þingmenn út í þau málefni í víðum skilningi. Fyrir utan að það sem virðulegi forseti benti á var ekkert út fyrir efnið, það var hluti af málinu. Og jafnvel þótt svo hefði verið vil ég vara virðulegan forseta við því að ganga of langt í þessa átt,“ sagði Helgi Hrafn og lauk máli sínu.

Brynjar forseti sagði svo: „Forseti telur sig ekki hafa gengið langt í þessa átt. Það er engin nýjung að gera athugasemd af þessu tagi ef farið er langt út fyrir efnið. Svo geta menn haft mismunandi skoðanir á því hvað sé eðlilegt í þeim efnum.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: