- Advertisement -

„Fólk þarf að fá mat núna, það er lokað inni“

Hvað getur það gert?

„Nú er fólk með undirliggjandi sjúkdóma lokað inni. Það hefur ekki efni á að kaupa mat út mánuðinn. Það er lokað inni.“

Það var Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, sem sagði þetta þegar verið var að ræða fjármálaáætlun næsta kjörtímabils.

Guðmundur Ingi rifjaði upp orð Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra sem hafði sagt stöðu þessa fólks vera í nefnd og hún verði endurskoðuð. Guðmundi þykir það ekki nóg: „Fólk getur ekki borðað það sem er í nefnd eða endurskoðun. Það þarf að fá mat núna, það er lokað inni. Hvað getur það gert? Hvað á að gera? Það er dýrt að panta mat og fólk á ekki pening fyrir mat í lok mánaðarins.“

Það er svo rosalega dýrt.

Guðmundur Ingi vitnaði til fádæma orða Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um það sé fámennur hópur sem búið við þessar ömurlegu aðstæður.

„Fyrst þetta er svona fámennur hópur, hvers vegna í ósköpunum er þá ekki búið að hjálpa honum? Þá sagði hann: Það er svo dýrt. Það er svo rosalega dýrt. En það getur bara ekki verið rosalega dýrt að hífa einhverja sem eru með 200.000 kr. útborgaðar upp í það að þeir geti keypt sér mat og lifað mannsæmandi lífi á Íslandi. Það er bara útilokað.“

Guðmundur Ingi beindi orðum sínum aftur til Ásmundar Einars:

„Þú segist vera stoltur af þessu kerfi, að því hafi verið komið á. Þú getur ekki verið stoltur af þessu. Þetta er lítill hópur, þetta er hópur sem á að hjálpa og það er búið að segja að það eigi að hjálpa honum. En um leið og maður minnir ykkur á þá er það alltaf svo dýrt. Það er ekki dýrt. Það er ofboðslega dýrt að hafa þetta vegna þess að það á eftir að kosta okkur miklu meira að hjálpa þessu fólki ekki.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: