- Advertisement -

Ríkisstjórnin setti reglur sem skilja fátækasta fólkið út undan

…tekinn eignarnámi af ríkisstjórninni.

„Hvernig í ósköpunum getur ríkisstjórnin sett reglur um vinnu fyrir þá sem verst eru staddir í þjóðfélaginu, sem skilur fólk í þeirra stöðu út undan?“

Það var að sjalfsögðu Guðmundur Ingi Kristinsson sem þannig talaði. Það var á Alþingi í dag.

„Einstaklingi á félagsbótum, sem hafði fundið sér vinnu í Atvinnu með stuðningi upp á 472.000 á mánuði og 11,5% framlagi til lífeyrissjóðs, var neitað af Vinnumálastofnun um vinnuna vegna þess hann féll ekki inn í ramma hjá ríkisstjórninni. Hvers vegna í ósköpunum er verið að neita þeim um vinnu sem reynt hafa að tóra við ömurlegar aðstæður á einhverjum rétt rúmum 160.000–200.000 kr. á mánuði og þar sem allar tekjur skerðast, líka tekjur maka? Hvernig í ósköpunum getur ríkisstjórnin sett reglur um vinnu fyrir þá sem verst eru staddir í þjóðfélaginu, sem skilur fólk í þeirra stöðu út undan? Ríkissjóður á að bjóða öllum sem eru í þeirri ömurlegu aðstöðu að vera á félagsbótum sveitarfélaganna strax vinnu með stuðningi upp á 472.000 kr. á mánuði og 11,5% framlagi til lífeyrissjóðs.

…leyfið því þá að vinna.

Ég get ekki ímyndað mér að þetta séu margir. Þetta er einmitt hópurinn sem þarf á þessu peppi að halda til að komast út úr ömurlegum aðstæðum og í vinnu innan um vinnandi fólk. Þegar fólk í slíkum aðstæðum finnur sér vinnu, í guðanna bænum leyfið því þá að vinna. Ekki segja nei við fólk sem sýnir vilja til að bjarga sér út úr sárafátækt.

Á sama tíma og verið er að kynna Atvinnu með stuðningi upp á 472.000 kr. framlag lepja stúdentar dauðann úr skel og fá ekki þær atvinnuleysisbætur sem þeir hafa rétt á. Stúdentar fá ekki að fara í þetta úrræði, Atvinnu með stuðningi, og einnig er réttur sem þeir hafa unnið sér inn með vinnu, atvinnuleysisbætur, tekinn eignarnámi af ríkisstjórninni. Stúdentar borga milljarða af launum sínum í atvinnuleysissjóð en er neitað um sjálfsagðan launarétt sinn til atvinnuleysisbóta. Fólk í námi getur ekki fengið atvinnuleysisbætur ef það tekur fleiri en tíu einingar, sem er fáránlegt því að þarna er um að ræða vinnuframlag og rétt til launa.

Meðalhóf er orð sem mikið hefur verið notað undanfarið af þingmönnum. Hvernig væri nú að það meðalhóf gilti einnig í þessu máli en ekki bara meðalmennskan ein? Fólkið fyrst, og sérstaklega þeir sem þurfa á því að halda, segir Flokkur fólksins.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: