- Advertisement -

Bjarni er einn af; „draugum fortíðar“

…tók sjálfur þátt í að hengja þennan myllustein um háls skattgreiðenda…

„Um þetta hafði maður náttúrlega miklar efasemdir en um þetta var samið við ríkisstjórnarmyndunina 2003 og ef það hefði ekki verið gert þá hefði sú ríkisstjórn ekki verið mynduð, það er hluti af veruleika stjórnmálamannsins.“

„Þetta eru orð Geirs H. Haarde úr rannsóknarskýrslunni um bankahrunið. Þarna tjáir hann sig um þær breytingar sem voru gerðar á lögum og reglum um Íbúðalánasjóð árið 2004. Hæstvirtur fjármálaráðherra var óbreyttur þingmaður á þessum tíma og greiddi atkvæði með þessum breytingum. Hann er sjálfur einn af þessum draugum fortíðar sem hann minntist á, tók sjálfur þátt í að hengja þennan myllustein um háls skattgreiðenda en reynir nú að slá sig til riddara í glímu við kröfuhafa,” sagði Jóhann Pall Jóhannsson Samfylkingiu á Alþingi.

„Hverjir eru þessir kröfuhafar? Það eru aðallega lífeyrissjóðirnir okkar og einhverjir þeirra gætu þurft að skerða lífeyrisgreiðslur vegna þessa. Seðlabanki Íslands varaði við, Pétur heitinn Blöndal varaði við, Jóhanna Sigurðardóttir varaði við en allt kom fyrir ekki. Það þurfti jú að viðhalda stjórnarsamstarfinu, viðhalda völdum. Ég vil því spyrja: Hvaða lærdóm er hægt að draga af þessu máli? Sér hæstvirtur ráðherra eftir stuðningi sínum við þetta mál árið 2004? Hvernig getum við hér á Alþingi komið í veg fyrir að svona lagað gerist í framtíðinni, að almannahagsmunum sé fórnað til að bjarga stjórnarsamstarfi og ráðherrastólum?“

Bjarni: „Þarna var tekin óásættanleg áhætta.”

„Það er alveg rétt að ég stóð með stjórnarmeirihlutanum á þessum tíma og kom inn sem nýr þingmaður 2003. En ekkert af því breytir í sjálfu sér þeirri staðreynd að það þarf að taka á þessu máli og við erum að ræða um það hér með hvaða hætti við ætlum að spila úr ríkisábyrgðinni og það er minn málstaður í þessari umræðu að við eigum að láta skilmála ábyrgðarinnar gilda,” sagði Bjarni Benediktsson.

„Við gætum tekið mörg dæmi en ég leyfi mér að nefna Icesave-málið fræga. Mörgum fannst á sínum tíma að vegna þess að við hefðum klúðrað öllu svo mikið að þá gætum við bara samþykkt nánast hvað sem er, við hefðum einhvers konar siðferðilega skyldu til þess eða eitthvað slíkt. Það átti ekki við að mínu áliti og það á heldur ekki við núna. Við þurfum bara einfaldlega að taka afstöðu til þess hvenær við ætlum að axla ábyrgð á málinu sem Alþingi, með hvaða hætti, og lærdómurinn af þessu er auðvitað löngu kominn fram. Þarna var tekin óásættanleg áhætta.”


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: