- Advertisement -

Fer Bjarni með ríkissjóð í kennitöluflakk?

„Meginreglan er að samningar skuli standa og að líftími skuldabréfa standi. Er hægt að breyta leikreglunum bara vegna þess að lánskjörin eru ríkinu óhagstæð? Væri ekki gott fyrir heimilin ef þau gætu leyft sér þetta, hætt bara við að skulda núna?“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

„Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur núna lagt fram svokallað áformaskjal um lög til að slíta ÍL-sjóði í beinu framhaldi af því að 20 lífeyrissjóðir sögðu engar forsendur fyrir því að breyta leikreglum eftir á eins og fjármálaráðherra nú krefst,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

„Staða ÍL-sjóðs er alvarleg og hún á rætur að rekja í alvarleg pólitísk mistök á sínum tíma en lækningin má ekki valda meiri skaða en sjúkdómurinn sjálfur. Lögfræðiálit um að fjármálaráðherra sé í stríði við eignarréttinn er ekki eitthvert léttvægt hjal. Eignarréttarákvæði stjórnarskrár er undir. Fjármálaráðherra segir raunar í þessu áformaskjali sínu að hann búist beinlínis við dómsmálum um það hvort hann sé brotlegur við stjórnarskrá en hann talar í staðinn bara um sparnað fyrir ríkissjóð, sparnað sem felst í því að fara í sparnað lífeyrisþega og sparifjáreigenda til að rétta af bókhald ríkissjóðs. Þekkist sambærileg nálgun um skuldabréf með ríkisábyrgð?“

„Meginreglan er að samningar skuli standa og að líftími skuldabréfa standi. Er hægt að breyta leikreglunum bara vegna þess að lánskjörin eru ríkinu óhagstæð? Væri ekki gott fyrir heimilin ef þau gætu leyft sér þetta, hætt bara við að skulda núna?

Trúverðugleiki ríkissjóðs er í hættu.

Trúverðugleiki ríkissjóðs er í hættu, bæði sem marktækur aðili við fjármálastjórnina og sem lántakandi gagnvart fjármálamörkuðum. Ætlar ríkið, sem öruggasti skuldarinn á markaði núna, að fara að stunda kennitöluflakk? Hver mun treysta ríkissjóði sem gengur svona fram eða hver vill eiga viðskipti við íslenska ríkissjóðinn sem haga sér svona? Heimilin vita að lánstraust byggist á greiðslusögu og það sama á við um ríkið.

Ráðherrar tala núna um það sem vandamál að lánshæfismat Íslands sé ekki betra og að við njótum ekki sannmælis um vaxtakjör eftir hrunið. En hver verða lánskjör íslenska ríkisins þegar stjórnvöld lýsa því yfir að þau séu til í slagsmál inni í dómsölum um það hvort eignarrétturinn sé enn einhvers virði á Íslandi?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: