- Advertisement -

Allt á ensku í sóttvarnarhótelinu

Eftir lesturinn setti ég ruslapoka fram á gang samkvæmt ensku reglunum frá sóttó.

Margnís R. Einarsson skrifaði:

Fyrsti nótt í einangrun er liðin. Það er ekki hægt annað en að dást að hvað íslenska ríkið passar vel upp á mann og að maður smiti ekki út frá sér ógeðslegu veirunni sem ég hugsanlega gæti innihaldið hafandi verið á Spáni í borg þar sem líkurnar á að smitast mælast í brotabroti úr prómilli. Þegar ég vaknaði snemma í morgun las ég bréf sem sóttvarnaryfirvaldið hafði skrifaði mér. Á ensku. Mér tókst að komast í gegnum lesmálið mér til nokkurs skilnings. Eftir lesturinn setti ég ruslapoka fram á gang samkvæmt ensku reglunum frá sóttó og gekk svo inná setustofu innar á ganginum til að reyna að átta mig á hvar ég væri hér í borg óttans. Þegar ég snéri inn á herbergið drakk ég vatn úr plastflösku sem íslenska ríkið hafði gefið mér. Mér varð litið á edikettuna og sá þá mér til nokkurrar gleði að vatnið hafði verið átappað í Bretlandi; Chase Spring, Roxane UK, Fradley Par, WS13, Lichfield. Sem ég er að dást að hugulsemi sóttvarnaryfirvalda að hafa fyrir því að flytja inn dauðhreinsað vatn frá Englandi til að láta mig ekki drekka hugsanlega mengað Gvendarbrunnavatnið þá hringir síminn, fastlínusími hótelsins, sem maður alla jafna notar aldrei á gistihúsum. Ég svaraði varfærnislega, en þá ávarpaði mig unglingur á ensku og kvartaði flaumósa undan því að ég hefði verið að rápa um gangana. Ég baðst afsökunar á þessu broti á sóttvarnarreglum íslenska ríkisins, en spurði svo af hverju allt væri á ensku? Meira að segja vatnið væri enskt og sóttvarnarreglubréfið á ensku, erum við ekki í Reykjavík Íslandi? Eða Smókí Bei Æsland? Við því átti hann ekki svar.

Löggan talaði fallega íslensku.

Flugið heim í gær var algerlega áreynslulaust. Allir töluðu íslensku og Æslander er besta flugfélag í heimi. Ég lenti í fimm rosalegum biðröðum á flugvellinum í Alicante, sem var bara skemmtilegt því ég kynntist fínu fólki sem hafði athyglisverðar skoðanir á sóttvarnareftirliti íslenska ríkisins. Í flugstöð Leifs Eiríkssonar tók á móti mér ung kona sem talaði bara ensku. Ég bauð henni upp á dönsku, spænsku og ítölsku. Nei, hún vildi bara tala ensku og varð pirruð þegar ég spurði af hverju hún væri svona illa menntuð í tungumálum og kallaði á lögguna. Löggan talaði fallega íslensku og var hin alþýðlegasta. Allt gekk snurðulaust eftir það. Mannskapnum var troðið inn í rútu í boði íslenska ríkisins og enginn pældi eina sekúndu í tveggja metra reglunni. Núna bíð ég mjög svangur eftir morgunmat í boði “Staff of the quarantine facility”. Meira blogg á morgun.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: