- Advertisement -

Alþingi fresti nauðungarsölum

Jón Þór Ólafsson:
Nú er boltinn hjá alþingismönnum.

„Frumvarp Pírata um frestun nauðungarsölu er komið fram. Það byggir algerlega á frumvarpi sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi hæstvirtur innanríkisráðherra, lagði fram á sínum tíma, 2013, takið eftir, það var samt sem áður fimm árum eftir hrunið, versta efnahagshrun á Íslandi. Núna í miðjum Covid-faraldrinum vitum við að líklega verður þetta versta efnahagskreppa Íslands í heila öld. Fimm árum eftir síðasta hrun, í síðustu kreppu, var samt sem áður verið að leggja fram frumvarp um frestun nauðungarsölu,“ sagði Jón Þór Ólafsson Pírati í þingræðu.

„Það er kominn tími til að gefa þessi skýru skilaboð: Alþingi Íslendinga ætlar að fresta nauðungarsölum, alla vega í ár til að byrja með, kannski gæti þurft að fresta þeim lengur í framhaldinu. Um það snýst frumvarp Pírata. Frumvarpið er komið fram. Fordæmi fyrir slíku frumvarpi er til staðar og það rúmast innan ákvæðis stjórnarskrárinnar um eignarréttinn. Þetta gildir bara um heimili fólks þar sem það heldur heimili. Faraldurinn mun valda þessari verri kreppu,“ sagði Jón og bætti við:

„Nú er boltinn hjá alþingismönnum sem geta sent þau skilaboð í dag að þeir geta látið prenta frumvarpið upp og setja nafn sitt á það eða hjá ríkisstjórninni sem getur tekið málið upp og útfært með sínum hætti. Boltanum hefur verið kastað. Það er kominn tími á að senda skilaboð út í samfélagið að við ætlum að fresta nauðungarsölum, fólk á að fá það svigrúm.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: