- Advertisement -

Ekki eitt orð um harmleikinn á Bræðraborgarstíg

Ömurlegt, kaldranalegt, fáránlegt. Og ég skammast mín fyrir að hafa lesið greinina tvisvar.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er oddviti Viðreisnar í borgarstjórn. Hún er formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra í Reykjavík. Hún á einnig sæti í Neyðarstjórn Reykjavíkur, sem varamaður borgarstjóra. Sennilega á hún sæti í fjölmörgum öðrum nefndum og ráðum vegna valdastöðu sinnar í höfuðborginni.

Þórdís Lóa skrifar árámótagrein í Kjarnann, svona uppgjörs-grein þar sem hún horfir yfir farinn veg, yfir atburðarás liðins árs, svona grein þar sem hún nefnir merkilegustu atburði ársins sem var að líða, veltir vöngum og dregur lærdóm. Hún hefur greinina á þessum orðum: „Þetta er ár sem verður lengi í minnum haft. Margir munu jafnvel minnast þess sem annus horribilis.“Hún telur svo upp það sem gerir það að verkum að árisins verður minnst sem hins hræðilega árs: „Þetta er árið sem hófst á snjóflóðum á Flateyri og í Súgandafirði. Sem betur töpuðust þar einungis veraldlegar eignir og mannbjörg varð. En umhverfið okkar var staðráðið í að minna okkur á að það eru ekki alltaf mannfólkið sem ræður för. Umhverfið hélt áfram að minna á sig með óveðri og rauðum viðvörunum, jarðhræringum við Grindavík, heimsfaraldri sem hefur sett líf okkar nokkuð úr skorðum. Nú síðast með aurskriðum á Seyðisfirði.“

Að þessari upptalningu lokinni segir Þórdís að við sem samfélag getum ekki látið stjórnast af ótta, að við höfum sýnt samstöðu, seiglu og samkennd, og fer svo í að lista það sem hún telur að vel hafi tekist til, sérstaklega í Reykjavík; einn kaflinn í áramótaannálinum heitir „Sólin skein í sumar og mun skína aftur“. Í honum segir m.a.: „Við vildum líka reyna að gera sumarið aðeins skemmtilegt, eins og aðstæður leyfa, með því að hafa líf í borginni – þrátt fyrir að virða tvo metrana“ og „Enda var sumarið gott“.

Ég er búin að lesa árámóta-grein Þórdísa Lóu tvisvar. Í seinna skiptið vegna þess að ég hélt að mér hlyti að hafa yfirsést „eitthvað“, mér hlyti að hafa yfirsést kaflinn, málsgreinin, setningin, þar sem formaður borgarráðs, staðgengill borgarstjóra, varamaður borgarstjóra í Neyðarstjórn Reykjavíkur fjallaði um eldsvoðann á Bræðraborgarstíg, harmleikinn þar sem þrjár ungar manneskjur, 22 ára, 25 ára og 26 ára, létu lífið við skelfilegar aðstæður. Eldsvoðann sem var sá mannskæðasti í marga áratugi. Eldsvoðann sem varð í húsi sem algjör opinber vitneskja var um að ekki væri mannabústaður en fjöldi fólks bjó samt í. Bjó í vegna þeirrar húsnæðiskreppu sem fengið hefur að viðgangast á kostnað hinna eignalausu. En mér yfirsást ekkert. Á eldsvoðann er einfaldlega ekki minnst einu orði. Ekki einu orði.

Hvað gerir það að verkum að formaður borgarráðs minnist ekki einu orði á þann mikla harmleik sem átti sér stað 25. júní síðastliðinn? Hvað gerir það að verkum að atburður sem leiddi til hræðilegs dauðdaga þessa unga fólks er ekki partur af annus horribilis skrásetningu Þórdísar Lóu? Er hún svo huglaus að hún þorir ekki að draga athygli að atburðinum vegna þess að athyglin leiðir óumflýjanlega til þess að við hugleiðum stéttskiptinguna sem grasserar í borginni, breiðir úr sér líkt og eldur breiðir úr sér í gömlu og ónýtu húsi þar sem engum eldvörnum hefur verið sinnt? Eða hefur hún þegar gleymt hinum skelfilega degi? Er skeytingarleysi hennar gagnvart örlögum aðflutts vinnuafls, láglaunafólksins sem hefur verið ómissandi partur af framleiðslu-gangverki vellystina þeirra sem íslensk yfirstétt lifir við, svo mikið að jafnvel atburður líkt og sá sem hér um ræðir, atburður sem er afleiðing þess að dauðagildra var spennt og skilin eftir svo að saklaust fólk gæti stigið í hana, skilin eftir með algjörri vitneskju þeirra sem fara með völd, nær ekki að brjótast í gegnum sjálfsánægjuna og sjálfsupphafninguna, nær ekki að brjóta þó ekki væri nema lítið gat á hina einbeittu veruleikafirringu meðlima þeirrar stéttar sem á og sem má?

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs.

Ég fullyrði að ef þau sem létu lífið á Bræðraborgarstíg hefðu verið börn reykvískrar borgarastéttar, en ekki meðlimir hins stóra hóps aðflutts verkafólks, ekki pólskt vinnuafl, ekki pólsk verkamanna-ungmenni, léti formaður borgarráðs sér ekki detta til hugar að gleyma sorgardeginum mikla svo fljótt.

Ég veit að einhverjum finnst ljótt af mér að tala um þetta. Að ég sé „reið“ og „æst“, sé að ráðast á Þórdísi Lóu. En það verður svo að vera. Ég er reið. Reið yfir því að ógeðslegt aðskilnaðarkerfi sé látið viðgangast í þessari borg. Ógeðslegt kerfi stéttskiptingar og xenófóbíu. Kerfi sem er alveg raunverulegt, ástand sem er á ÁBYRGÐ þeirra sem telja sig best um komin af öllum til að bera mikla ábyrgð og þiggja fyrir það mikil laun. Ástand sem vex og dafnar í skjóli þess að þau sem völdin láta eins og það sé ekki raunverulegt. Kerfi sem mun endurnæra sjálft sig VEGNA þess að þau sem telja sig svo merkileg að þau séu best til þess fallin að stjórna eru blinduð af eigin stéttaandúð á þeim sem ekkert eiga og ekkert mega. Nema vinna og halda áfram að vera ósýnileg. Þetta er staðreyndin og það er fáránlegt að láta sem hún sé ekki raunveruleg. Og ég hef ekki áhuga á að afneita raunveruleikanum.

Þórdís Lóa er einfaldlega ekki að eyða hugsunum sínum og orðum í aðflutt verkafólk og orlög þess.

Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg þann 25. júní var neyðar-atburður. Í neyð kastaði fólk sér út um glugga. Í neyð dó fólk við þær aðstæður sem sam-manneskjulegt er um alla veröld að flokka sem þær óbærilegustu sem mannshugurinn getur hugsað sér. Fyrir aðstandendur þeirra sem dóu og þau sem sluppu við illan leik er árið sem leið ár hörmunga, annus horribilis.

Einhver myndu eflaust segja að staðreyndin að manneskja sem grobbar sig af því að eiga sæti í Neyðarstjórn Reykjavíkur sem varamaður borgarstjóra skuli ekki sá ástæðu til að minnast á atburðinn sé neyðarlegt í merkingunni „broslegt á napran eða vandræðalegan hátt“. En ég ætla að segja að það sé siðlaust og til skammar. Ömurlegt, kaldranalegt, fáránlegt. Og ég skammast mín fyrir að hafa lesið greinina tvisvar, fyrir að hafa raunverulega haldið að ég hefði gert mistök í lestrinum, fyrir að hafa ekki strax áttað mig á því að Þórdís Lóa er einfaldlega ekki að eyða hugsunum sínum og orðum í aðflutt verkafólk og orlög þess. Hvernig sá ég ekki strax að ekkert er augljósara en það?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: