- Advertisement -

Eru ekki allir í stuði til bankasölu?

Með öllu er ótækt að ríkið sé helsti eigandi viðskiptabankanna. Þetta heyrist oft og er nánast aldrei mótmælt. Er tekið sem sjálfsgöðum hlut. Ef rétt er, eru þá ekki bara allir í stuði til að selja einn banka eða tvo?

Við erum enn með opin sár eftir einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans. Þrátt fyrir að sporin eigi að hræða er staðan samt sú að helstu handhafar frelsins vilja umfram allt að einkaaðilar eignist bankana. Og það sem fyrst.

Síðustu atburðir geta ekki annað en hægt á þeirri hugsun. Er fólkinu treystandi? Ég heyrði rödd Bjarna Benediktssonar í morgunfréttum, rétt í þessu, sem sagði að alltof mikið vantraust ríki í garð einkaframtaksins. Bjarni sagði að fólk verði að treysta betur.

Er þá ekki ágætt að rifja upp hvernig traust verður til. Það skapast sjaldnast af orðunum einum. Það skapst oftast af verkum mannanna. Það er einmitt þess vegna sem tortryggnin er eins mikil og raun er á. Vegna verkanna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Meðan traust milli fólks er í fullkomnu lágmarki er best að fara varlega. Ríkið má alveg eiga tvo banka. Það truflar almenning í landinu ekki neitt. Stærstu fyrirtæki landsins eiga eflaust sín helstu viðskipti við banka í útlöndum, þar sem önnur lögmál gilda.

Ef við samþykkjum að selja bankana er best að gera það ekki fyrr en sátt verður um það.

Fæst okkar eru í stuði til bankasölu. Ekki sem stendur.

Hvaða fólk ætti svo sem að annast það fyrir hönd ríkisins? Hverjum treystum við nógu vel til þess. Ég man ekki eftir einum einasta manni sem yrði sjálfkjörinn.

Það er enginn í stuði.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: