- Advertisement -

Flytja fátækt fólk hreppaflutningum og svipta það fjárhagslegt sjálfstæði

„…af því að þú varst fluttur hreppaflutningum á milli staða á hjúkrunarheimili?“

Guðmundur Ingi Kristinsson.

Félagsmál „Svokölluð endurskoðun almannatrygginga stendur yfir og í vikunni vorum við að taka út eitt mál og afgreiða úr velferðarnefnd frá félags- og vinnumarkaðsráðherra, frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð (réttindaávinnsla og breytt framsetning). Því miður gat Flokkur fólksins ekki verið með á þeirri afgreiðslu því ekki var verið að taka á nema brotabroti af því fjárhagslega ofbeldi og öðrum annmörkum sem þessi bútasaumaði óskapnaður sem lög um almannatryggingar eru, en inni í þeim er enn þá 10% skerðing hjá þeim sem eru með lægsta ellilífeyrinn í þessu kerfi og króna á móti krónu. Enn þá er líka ekki bara verið að setja fjármagnstekjuskatt á þá sem eru í örorku- og ellilífeyriskerfinu heldur líka 65 prósent skerðingar ofan á það, sem er auðvitað ekkert annað en fjárhagsleg eignaupptaka,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, á Alþingi nú undir helgina.

Guðmundur var ekki hættur: „Þetta er gert vegna þess að það fólk er hvað — veikt, fatlað, slasað. Um jólin greiddum við út 60.300 kr. til öryrkja en það voru 150–200 öryrkjar sem fengu ekki krónu af því. Hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að þeir höfðu sumir verið hreppafluttir landshorna á milli og settir inn á hjúkrunarheimili. Við það missa þeir fjárhagslegt sjálfstæði, eru sviptir öllum fjármunum og dagpeningum hent í þá. En fá þeir að eiga dagpeningana? Nei. Ef þeir skyldu nú hafa einhverjar tekjur þá er 65 prósent skerðing af þeim dagpeningum. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum er ríkið að gera þetta? Er það til að spara 10–12 milljónir eða er það bara vegna þess að þeir geta gert þetta við verst setta fólkið okkar sem er inni á stofnunum og á ekki einu sinni að vera þar? Ég spyr hæstvirtan félags- og vinnumarkaðsráðherra: Ætlar hann að sjá til þess að þetta fólk fái 60.300 kr. eins og allir aðrir öryrkjar hafa fengið?

Hver bjó til þetta kerfi? Hvernig er hægt að viðhalda svona kerfi? Þetta var hægt í gamla daga en á hvaða öld erum við? Hvernig getum við komið svona fram við veikt og slasað fólk og sagt við það: Af því að þú ert veikur eða slasaður eða fatlaður þá má svipta þig fjárræði, henda í þig vasapeningum og þú færð ekki 60.300 kr. eins og aðrir af því að þú varst fluttur hreppaflutningum á milli staða á hjúkrunarheimili?“

Ég vil bara taka það skýrt fram hérna að við erum í vinnu við það að breyta þessu kerfi.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Nafni Guðmundar Inga, Guðmundur Ingi Guðbrandsson ráðherra og varaformaður Vinstri grænna svaraði:

„Hvað varðar aðstöðu fatlaðs fólks sem þarf að dvelja á hjúkrunarheimilum þá er heilbrigðisráðherra með sérstakan starfshóp í gangi til að fjalla um það málefni og við vonumst til þess að það komi eitthvað út úr því mjög bráðlega. Það er vissulega sérstakt viðfangsefni sem ég deili með háttvirtum þingmanni að ég hef áhyggjur af. Ég vil bara taka það skýrt fram hérna að við erum í vinnu við það að breyta þessu kerfi. Við erum í vinnu við að breyta uppbyggingu kerfisins, í vinnu við að breyta bæði greiðsluflokkum og greiðslukerfinu, við erum í vinnu sem snýr að því að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem ber að lögfesta. Við erum að vinna að því að setja mannréttindastofnun á fót. Við erum að vinna að landsáætlun um framkvæmd samningsins. Það hefur sennilega aldrei eða það er alla vega orðið langt síðan jafn margt hefur verið að gerast í málefnum fatlaðs fólks og örorkulífeyrisþega og hjá þessari ríkisstjórn núna,“ sagði ráðherrann sem hafði engin svör, aðeins áætlanir um eitt og annað.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: