- Advertisement -

Hefur oft skipt um skoðun

„Ég viðurkenni alveg fúslega, herra forseti, að í gegnum árin sem stjórnmálamaður, ætli séu ekki orðin yfir 20 ár síðan maður gerist atvinnustjórnmálamaður, hefur maður sveiflast, reyndar löngu fyrir það, í afstöðunni til þess hvort kynjakvótar og slíkt eigi rétt á sér. Stundum hef ég ekki verið alveg viss en stundum verið það, svo að það sé bara sagt heiðarlega,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins og fyrrum varaformaður sama flokks, á Alþingi í umræðu um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja.

„Ég held hins vegar að það sé ekki rétt að fara þessa leið, að fara of mikið af stað með þessi sektarákvæði, og alls ekki í þessu máli þegar það gengur þokkalega að fjölga konum í stjórnum. Það mætti ganga hraðar, við getum alveg verið sammála um það. Það má líka velta því upp hvort við eigum að horfa til annars konar hvata til þess að þetta geti gengið hraðar ef stjórnvöld vilja hraða ferlinu með einhverjum hætti, ef við Alþingismenn treystum ekki fyrirtækjunum eða atvinnurekendum til að ná þessu markmiði. Ég treysti þeim reyndar alveg til þess.“

Gunnar Bragi sagði síðar í ræðunni: „Ég veit um dæmi — ég ætla ekki að nefna það hérna, ég er ekki viss um að viðkomandi kæri sig neitt um það — þar sem fyrirtæki hefur ákveðið að vaxa ekki þrátt fyrir möguleika á því vegna þess að menn sáu fram á að geta ekki uppfyllt kröfurnar um jafna eða sem jafnasta stöðu kynjanna í stjórn fyrirtækisins án þess að leita langt út fyrir þann hóp sem hefði áhuga eða þekkingu á fyrirtækinu. Kannski hefði verið hægt að komast hjá þessu með einhverjum hætti, ég veit það ekki, fá mömmu, ömmu eða einhvern til að taka þátt í því en það er náttúrlega ekki markmið laganna heldur. Við verðum svolítið að skoða þessa heildarmynd, herra forseti, hvernig okkur hefur gengið og hversu langt við eigum að ganga í að búa til viðurlög við öllu þessu.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: