- Advertisement -

Hið rétta andlit ríkisstjórnarinnar

Steinunn Ólína Þorvaldsdóttir skrifaði:

Ríkisstjórn Íslands sýnir sitt rétta andlit með brottvísun barna til Grikklands í nótt eða aðra nótt.

Ríkisstjórn Íslands með tvær ungar konur í fararbroddi, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Áslaugu Örnu dómsmálaráðherra, hefur ákveðið að senda flóttabörn og fjölskyldur þeirra til Grikklands á meðan að þjóðarleiðtogar annara Evrópuríkja bjarga börnum þaðan vegna skelfingarástands sem þar ríkir.

Rauði Kross Íslands fær ekki áheyrn stjórnvalda og almenningur öskrar sig hásan á Facebook og í blaðagreinum. Engin viðbrögð frá hinum ísköldu ráðakonum.

Hluti landsmanna svo gjörsamlega aftengdur að hann fyllir nú hillur af stroganoff og saltsíld eftir ráðleggingum almannavarna, grætur aflýstar skíðaferðir og heldur gala-kvöld þegar hann lýkur sóttkví. Sjálfhverf, stríðalin og spillt þjóð.

Við skulum átta okkur á því að við munum öll tapa í þessu máli og verða minni manneskjur á eftir. Auðvirðilegar mannleysur sem eiga enga samkennd til og þannig mun sagan minnast okkar. Íslensk stjórnvöld gera okkur nú meðsek í glæpum sínum gegn mannkyninu og við munum aldrei bera þess bætur. Aldrei.

Greinin birtist á Facebooksíðu Steinunnar Ólínu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: