- Advertisement -

Hundruð bíða eftir matargjöfum

Hversu lengi ætlar valdafólk í þessu landi að skella skollaeyrum við neyðarkalli fólks um aðstoð.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Hjá aðfluttu fólki, mest verka og láglaunafólki, er atvinnuleysi nú um 20%. Atvinnuleysið kemur sérlega illa niður á láglaunakonum af erlendum uppruna. Þetta fólk á ekki sparnað sem það getur notað þegar kreppan bankar á dyr. Stór hópur þessa fólks er á leigumarkaði. Þetta fólk hefur minna tengslanet en fólk sem fætt er á Íslandi, eðli málsins samkvæmt. Þetta fólk knúði áfram hagvöxtinn í ferðamanna-góðærinu. Þetta fólk stendur nú uppi með engar eignir og engar tekjur aðrar en atvinnuleysisbætur. Grunnatvinnuleysisbætur eru nú 289.510 kr. á mán­uði, 235.170 eftir að greiddar hafa verið af þeim skattar og gjöld. Öll sem búa á þessu landi, einu því dýrasta í veröldinni, vita að þessi upphæð er langt undir því sem þarf til að geta tryggt þak yfir höfuðið, mat á eldhúsborðið og skil á reikningum. Enda standa nú í röðum eftir matargjöfum hundruð manna og kvenna, m.a. fjöldi einstæðra mæðra sem þurfa að fá hjálp svo að börnin þeirra geti nærst. Áður en að Covid-kreppan hófst var fátækt barna raunverulegt vandamál í íslensku samfélagi. Það vandamál er nú í veldisvexti. Samt þrjóskast stjórnvöld við að hækka grunnbætur. Vegna þess að það má ekki skorta „hvata“ til atvinnuleitar. Í stórkostlegu fjöldaatvinnuleysi. 

Fólkið sem nú er atvinnulaust er fólkið sem hefur unnið baki brotnu, svitnað í erfiðisvinnu svo að kapítalistar geti auðgast. Þetta fólk hefur staðið skil á sköttum og gjöldum af sínum verkafólks-launum. Þetta fólk á það miklu meira inni en nokkur annar hópur að stjórnvöld geri skyldu sína gagnvart þeim. Það er til háborinnar skammar að bætur hafi ekki verið hækkaðar. Hversu lengi ætlar valdafólk í þessu landi að skella skollaeyrum við neyðarkalli fólks um aðstoð, neyðarkalli fólks sem er án atvinnu vegna sóttvarnarráðstafana sem stjórnvöld bera ábyrgð á?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: