- Advertisement -

„Ofsatrú ríkisstjórnarinnar á eigið ágæti“

„Ríkisstjórnin þarf ekki að skilja verst setta hópinn og heimilin eftir í rjúkandi rústum vegna verðbólgunnar, bara til að hampa og hjálpa þeim ofurríku.“

Guðmundur Ingi Kristinsson.

„Ofsatrú ríkisstjórnarinnar á eigið ágæti og góðmennsku gagnvart verst setta fólkinu á Íslandi hefur reynst sárafátæku fólki illa sem á ekki fyrir leigu, mat eða öðrum nauðsynjum fyrir börnin sín,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður Flokks fólksins.

„Ríkisstjórnin þarf ekki að skilja verst setta hópinn og heimilin eftir í rjúkandi rústum vegna verðbólgunnar, bara til að hampa og hjálpa þeim ofurríku. En því miður er það stjórnmálastefna og hagstjórn þeirra. Ofsatrú ríkisstjórnarinnar á eigið ágæti og á stjórnlausar stýrivaxtahækkanir bankastjórans við Arnarhól mun stórfjölga þeim sem ekki munu geta staðið undir stórauknum álögum til lengdar og einnig stórfækka þeim sem ná endum saman. Ríkisstjórnin þarf ekki að skilja allt eftir í rjúkandi rúst til að ná tökum á verðbólgunni.“

Síðan sagði Guðmundur: „Jú, verðbólgan er vissulega slæm en aðgerðir ríkisstjórnar sem er með ofsatrú á eigið ágæti og á stýrivaxtahækkanastjórann sinn valda bara ört hækkandi álögum á húsnæði, mat og aðrar lífsnauðsynjar. Við sjáum ofsatrú þeirra á eigið ágæti birtast í hækkandi matvöruverði, á nauðsynjum og linnulausum hækkunum af afborgunum af húsnæði. Er það ekki fjárhagslegt hryðjuverk að senda ungu fólki löngu eftir á kröfu um aukagreiðslu upp á 3 millj. kr. á ári vegna íbúðarkaupa? Þetta er ekkert annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi sem á á endanum að enda í hverju? Enda hvar? Í eignaupptöku?“

„Ríkisstjórnin á fyrst og fremst að taka mið af lífskjörum fólks í landinu, ekki köldum kennisetningum ríkra ofsatrúarmanna sem vilja ekkert annað en að leiða almenning í farsælar ógöngur en auðvitað er ríkisstjórnin enn aðgerðalaus og upptekin af að sjá ekki og heyra ekki. Kannski er gott að vekja hana ekki vegna þess að þá gerir hún bara enn þá meiri bölvun af sér,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: