- Advertisement -

Segir Birgi þingforseta setja ofan í við þingmenn sem hafi allir málfrelsi

„En ég segi fyrir mitt leyti að hafi ég talað ógætilega eða gengið of langt að þessu leyti í athugasemdum mínum hér á undan þá biðst ég afsökunar á því.“

Birgir Ármannsson.

Helga Vala Helgadóttir sagði á þingi í dag að Birgir Ármannsson þingforseti hafi leiðinlegan ávana:

„Það er orðinn svolítið hvimleiður ávani hjá hæstvirtum forseta að vera sífellt og endalaust að setja ofan í við það sem háttvirtir þingmenn, þjóðkjörnir þingmenn þessa lands, leyfa sér að segja í pontu. Þetta er orðin einhver viðtekin venja; í hvert skipti sem fulltrúi stjórnarandstöðunnar stígur í pontu þá fær hann einhvers konar ávirðingar í lokin þar sem gert er lítið úr orðum viðkomandi þingmanns. Ég verð að biðja hæstvirtan forseta um að láta af þessum ósið af því að þetta setur þingið niður. Hér á Alþingi Íslendinga sitja 63 þjóðkjörnir einstaklingar sem allir hafa sitt málfrelsi og eiga að fá að koma hingað upp til að tjá skoðanir sínar á hinu og þessu sem á sér stað hér eða sem varðar fundarstjórn forseta,“ sagði Helga Vala.

Birgir svaraði:

Það er rétt hjá Helgu Völu Helgadóttur að réttur þingmanna er ríkur að þessu leyti. Forseti hefur stundum talið að nauðsynlegt væri að árétta það sérstaklega að ekki sé haldið áfram efnislegum umræðum um mál sem áður hafa verið til umræðu, t.d. í óundirbúnum fyrirspurnum þar sem ræðutími er takmarkaður og þess háttar. En ég segi fyrir mitt leyti að hafi ég talað ógætilega eða gengið of langt að þessu leyti í athugasemdum mínum hér á undan þá biðst ég afsökunar á því. Það er auðvitað rétt að þingmenn hafa rétt til þess að bera af sér sakir og þingmenn hafa rétt til að tjá sig um fundarstjórn forseta en að sjálfsögðu er þó gert ráð fyrir því að það sé gert í þeim tilgangi en ekki til að framlengja efnislega umræðu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: