- Advertisement -

Seljavegurinn og séra Árelíus

Það var ekki mulið undir okkur bræðurna. Mamma gerði samt allt sem hún gat, og stundum eflaust meira en það. Hvers vegna þetta var svona læt ég liggja á milli hluta, en þetta var stundum ansi hart.

Í hallæri fluttum við frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Pabbi, sem var bílvirki, fékk vinnu á verkstæðinu hjá Steindóri, sem var umfangsmikil leigubílastöð. Með vinnunni fylgdi leiguíbúð að Seljavegi 33. Það hús átti Steindór og starfsmenn hans leigðu af honum. Voru þannig bundnir vinnuveitandanum, voru í vistaböndum. Við bræðurnir kunnum vel við okkur á Seljaveginum. En mamma ekki. Áhyggjurnar voru jú hennar.

Í næsta nágrenni við okkur voru til dæmis Selbrekkurnar og Selbúðirnar. Í okkar hverfi var ekkert tiltökumál þó fólk væri fátækt. Það voru margir fátækir sem bjuggu þeim megin við Framnesveg.

Svo kom að hjónaband mömmu og pabba tók enda. Þar sem mamma var ekki lengur gift starfsmanni Steindórs varð hún að flytja út. Við tók óvissa. Hún ein með okkur strákana fjóra.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eftir leit að leiguíbúð fékk mamma leigða þriggja herbergja íbúð við Tjarnastíg á Seltjarnarnesi. Það var fínt umhverfi. Einn skugga bar þar á. Eigandi hússins var séra Árelíus Níelsson, prestur við Langholtskirkju.

Jæja, um hver mánaðarmót fór ég með strætó inn í Álfheima, en þar stóð glæsilegur prestsbústaður. Þar átti Árelíus heima. Það var sama hvernig viðraði. Adrei bauð Árelíus mér inni í forstofu meðan hann skrifaði kvittunina. Hann lét mig standa úti hverjar sem aðstæðurnar voru. Hann kvaddi mig aldrei. Aðeins rétti mér kvittunina, þegjandi.

Húsið við Tjarnarstíg var kynnt upp með olíu. Miðstöðin var slök, bilaði sí og æ. Jafnt að vetri sem á öðrum árstímum. Árelíus var tregur til að láta laga miðstöðina og oft var kalt, ískalt hjá okkur. Rúðurnar voru oft hélaðar að innan og við þetta urðum við að búa. Presturinn fékkst ekki til að láta gera við. En hann fékk leiguna greidda.

Mér er minnisstætt að á leið heim úr skólanum hugsaði ég fyrst og fremst um hvort hiti væri á húsinu eða ekki. Vonbrigðin við að sjá hélaðar rúðurnar voru oft mikil og sár. Fleira er hægt að segja, en þess þarf ekki. Séra Árelíus var vondur leigusali.

Ekki rættist úr, sem heitið getur, hjá mömmu fyrr en hún fékk íbúð í verkamannabústöðum í Breiðholti. Þar með var efinn og kvíðinn að baki og eins skilyrði eða mannvonska leigusalanna.

Í dag er annað fólk í þessum eða ámóta aðstæðum. Hluti þessa fólks er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn. Þau vilja freista þess að bæta stöðu þess fólks sem þekkir ekki annað en efa og kvíða. Í áratugi hef ég ekki tekið afstöðu til stjórnmálaflokka. Nú geri ég það, fólk sem upplifir svipað og ég gerði er mitt fólk. Ég ætla að kjósa Sósíalistaflokkinn í kosningunum eftir tvær vikur.

Sigurjón M. Egilsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: