- Advertisement -

Skuggi jólanna

Ég ólst upp við þröngan kost, stundum mjög þröngan. Jólin báru eðlilega keim af því. Þau eru það seint í desember að það þurfti átak og jafnvel snilld til jólahaldsins. Mamma var snillingur. En stundum dugði það ekki til.

Minningarnar eru margar. Ein situr alltaf í mér. Þá var ég í Hagaskóla og á fyrsta skóladegi spurði kennarinn okkur hvað við hefðum fengið í jólagjöf. Hann lét ganga. Byrjaði fremst til vinstri og hélt svo áfram koll af kolli. Ég sat fyrir miðjum bekk aftast. Þannig fékk ég dágóðan tíma til að undirbúa svarið.

Það sem hinir krakkarnir fengu í jólagjöf var meira en ég hafði fengið. Ég man ekki hvað ég sagðist hafa fengið í jólagjöf en ýkti það og kannski laug því hreinlega. Ég man hins vegar hvað stelpan, sem sat fyrir framan mig, fékk í jólagjöf. Hún fékk skatthol. Sem hefur eflaust kostað meira en allar jólagjafirnar heima hjá mér kostuðu.

Skil ekki enn hvað vakti fyrir kennaranum. Jólin geta verið ágæt. En þau draga miskunnarlaust upp mismunun milli fólks. Oft slær fátækt skugga á jólin.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: