- Advertisement -

Tað er nú tað, Tolleifur minn

En ég held naumlega jafnvæginu, sem Bjarna besta vin verður svo tíðrætt um.

Jón Örn Marinósson skrifar:

24. janúar sagði ég litla sögu af 800 krónum sem blessuð ríkisstjórnin færði mér í hækkun á greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins og dugðu nokkurn veginn fyrir hækkun á vatns- og fráveitugjaldi vegna skrauthallar þeirrar sem við hjónin eigum í Vesturbænum. Því miður hafa örlög þessara 800 króna orðið næsta svipleg. Þar sem greiðslur úr lífeyrissjóði mínum höfðu hækkað á einu ári um 2,65% taldi ég rétt fyrir viku að skila inn nýrri tekjuáætlun til TR. Og viti menn: Blessuð stofnunin – í umboði og nafni ríkisstjórnarinnar og Alþingis – þakkaði nýja áætlun og lét fylgja með að ég hefði fengið ofgreiddar í janúar hvorki meira né minna en 1.601 krónu. Til að hlífa mér við versta högginu bauðst stofnunin til að draga ekki þessar 1.601 krónu af greiðslum til mín fyrr en 1. september árið 2021. Tað er nú tað, Tolleifur minn. Vegna 2,65% hækkunar á lífeyrisgreiðslum hef ég tapað 19.212 krónum hjá Tryggingastofnun þetta árið og ávinningurinn af 800 krónunum, sem átti að duga fyrir hækkun vatns- og fráveitugjalds, er horfinn og um 10.000 krónur til viðbótar. Ef ég nyti ekki 1.000 króna nettó vegna hækkunar á lífeyrisgreiðslum yrði ég væntanlega að hætta að skrúfa frá krana og sturta niður kjarabótum frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ásamt auðvitað ýmsu öðru. En ég held naumlega jafnvæginu, sem Bjarna besta vin verður svo tíðrætt um, og get skrúfað frá og sturtað niður – og er þakklátur 1.000 krónunum og ríkisstjórninni fyrir það.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: