En kjánarnir höfðu gleymt því að Ísland hafði verið með allt sitt á þurru í áratugi og því fráleitt að henda aragrúa fjár héðan yfir til sóðanna sem hafa verið með allt niðrum sig í áratugi.
Davíð Oddsson ritstjóri MOggans.
„Trump er nokkuð við aldur en það sem skiptir meira máli er að hann sparar sig hvergi, sefur fáar stundir á sólarhring og afkastar mjög miklu,“ þetta er bein tilvitnun í Reykjavíkurbréf Davíðs, þessa helgina.
(Donald Trump verður 79 ára 14. júní í sumar. Davíð ritstjóri er nýorðinn 77 ára.)
„Á fjórum dögum eftir innsetningu hefur hann setið lengi með stóra hópa blaðamanna, sem hrópa á hann spurningar, sem hann hefur svarað í nærri tvo tíma. Blaðamaður einn sagði á leiðinni út: Trump er búinn að svara spurningum blaðamanna oftar á þessum fjórum dögum en Joe Biden gerði á tveimur árum eða lengur! Fullyrt er að hann taki á hverjum degi eins mörg símtöl eins og honum er unnt og nú síðast ræddi hann við fulltrúa í Davos í Sviss (sem hann hefur lítið álit á).
„Ísland dinglaði með í allri vitleysunni…“
Hann hefur sagt Bandaríkin frá WHO, Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna, sem hann hefur, eins og fleiri, lengi haft fyrirlitningu á. Hann hefur dregið Bandaríkin út úr „Global Warming“, sem hann lítur á sem hvert annað bjánatal, þótt búið sé að fá ríki heims til að henda stórkostlegum upphæðum út í buskann, og er enn mjög óljóst hvaða svindlarar hafa hrifsað allt þetta firna fé til sín. Það eina sem er víst er að almenningur fær ekki krónu. Trump hefur tilkynnt að Bandaríkin vilji ekkert hafa með Parísarsamkomulagið að gera, en það var ein aðferð við að stýra ótrúlegum fjármunum út í buskann.“
Að lokum þessi tilvitnun í Reykjavíkurbréfið:
„Ísland dinglaði með í allri vitleysunni og hefur það kostað þjóðina ógrynni fjár, sem betur hefði farið í annað. En kjánarnir höfðu gleymt því að Ísland hafði verið með allt sitt á þurru í áratugi og því fráleitt að henda aragrúa fjár héðan yfir til sóðanna sem hafa verið með allt niðrum sig í áratugi. Síðasta ríkisstjórn asnaðist til að vera með sérstakan loftslagsráðherra, sem hefur ekkert verkefni annað en að ná peningum af almenningi og senda þá líka út í buskann, enda hálfri öld á eftir okkur.“