- Advertisement -

Unga fólkið í Framsókn vill Bjarna burt

Þetta var kæruleysi og hrein og klár ókurteisi í garð íslensku þjóðarinnar.

Gunnar Smári skrifar:

Ungt Framsóknarflokksfólk í Reykjavík vill Bjarna Benediktsson burt. Svona hlómar yfirlýsing Sigrúnar, félag ungs Framsóknarfólks í Reykjavík:

„Ungt Framsóknarfólk í Reykjavík lýsir yfir vantrausti á sitjandi fjármála- og efnahagsráðherra vegna þeirrar fordæmalausu hegðunar sem hann sýndi af sér þann 23. desember. Bjarni Benediktsson tók þátt í samkvæmi þar sem 40-50 manns komu saman og persónulegar sóttvarnir voru virtar að vettugi. Samkvæmið mölbraut sóttvarnarreglur, fólksfjöldi fór langt fram úr fjöldatakmörkunum, staðurinn sem samkvæmið var haldið átti að vera lokaður auk þess sem notkun grímna og annarra sóttvarna var verulega ábótavant.

Óforsvaranlegt er að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, brjóti gildandi sóttvarnarreglur þar sem um er að ræða reglur sem settar eru til að tryggja öryggi þjóðarinnar, bæði efnahagslega og heilsufarslega.

Þá telur ungt Framsóknarfólk í Reykjavík að Bjarni Benediktsson hafi sýnt með þessari hegðun að hann telji sig vera yfir lög og reglur hafinn. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sýnir af sér slíka hegðun. Óásættanlegt er að einstaklingur sem gegnir einni af æðstu stöðum íslensku þjóðarinnar hunsi ítrekað lög og reglur samfélagsins.

Ungt Framsóknarfólk í Reykjavík telur að Bjarni Benediktsson hafi sýnt af sér algert dómgreindarleysi sérstaklega í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem samfélagið hefur verið og mun vera að glíma við á komandi mánuðum, Covid-19 og náttúruhamfarir. Bjarni Benediktsson ætti að sjá sóma sinn í að segja af sér.“

Ungt fólk í VG gengur skemur, taka svipaðan pól í hæðina eins og formaður VG, að þetta hafi vissulega verið slæm hegðun og krefjast ekki afsagnar, þótt þau lýsi yfir vantrausti á Bjarna. Svona hljómar yfirlýsing Ungra vinstri grænna:

„Framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna tekur undir þær fjölmörgu raddir sem hafa gagnrýnt hegðun Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og lýsa yfir vantrausti á ráðherrann.

Bjarni sótti í gær samkvæmi þar sem sóttvarnareglur og leiðbeiningar um persónulegar sóttvarnir voru virtar algjörlega að vettugi. Fjöldi gesta í samkvæminu var yfir fjórfaldur fjöldi sem leyfilegt er að komi saman samkvæmt núgildandi samkomutakmörkunum, gestir voru ekki með grímur og kvöddust með faðmlögum og kossum þegar lögregla mætti til að leysa upp gleðina.

Ótækt er að ráðherra og formaður stjórnmálaflokks sýni af sér slíkt dómgreindarleysi og telji sig ekki þurfa að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda eiga um alla þegna samfélagsins. Fréttir hafa verið fluttar af fjölda fólks sem getur ekki verið með fjölskyldu og ástvinum yfir hátíðarnar þar sem þau eru að vanda sig við að fylgja þeim reglum sem settar hafa verið til að vernda þjóðina fyrir heimsfaraldri Covid 19. Æðstu ráðamenn þjóðarinnar ættu að ganga fram með góðu fordæmi og vera fyrirmyndir annarra í sóttvörnum.

Vissulega geta allir gert mistök á fordæmalausum tímum en þetta var eitthvað allt annað, þetta var kæruleysi og hrein og klár ókurteisi í garð íslensku þjóðarinnar.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: