- Advertisement -

Vinsælir foringjar eða heppnir

Ólafur Þ. Harðarson skrifaði góða grein sem við viljum endilega birta hér. Fyrirsögnin er Miðjunnar:

Í ágætri fréttaskýringu Björns Þorkákssonar í Fréttablaði er stutt spjall við mig um sögu Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Allt er þar rétt eftir haft, en hér kemur ítarlegri útgáfa:

Oft er sagt að persónuvinsældir foringja ráði úrslitum kosninga. En engin gögn benda til þess að þær hafi mikil áhrif hér og í Skandinavíu. Gjarnan er vitnað í borgarstjórnarkosningar 1990 þegar Sjálfstæðisflokkur fékk 60% atkvæða – og úrslitin talin sýna styrk Davíðs Oddssonar á atkvæðaveiðum.

Tveir aðrir borgarstjórar náðu svipuðum árangri og Davíð; Gunnar Thoroddsen 1958 (58%) og Birgir Ísleifur Gunnarsson 1974 (58%). Í öllum öðrum borgarstjórnarkosningum frá 1930 til 1994 fékk Sjálfstæðisflokkur um helming atkvæða (47-53%) . Þetta gilti um Gunnar 1950 (51%) og 1954 (50%), Birgi Ísleif 1978 (47%) og Davíð 1982 (53%) og 1986 (53%).

Hvers vegna toppuðu Gunnar, Birgir Ísleifur og Davíð svona glæsilega 1958, 1974 og 1990? Líklegast er að landsmálin skýri það – umdeildar vinstristjórnir fóru með landstjórnina þessi ár. Persónuvinsældir skýra varla þessa þrjá miklu kosningasigra. Og borgarmálefni ekki heldur.

Sumir telja persónuvinsældir Jóns Gnarr skýra mikinn kosningasigur Besta flokksins 2010. Miklu líklegra er að kjósendur hafi viljað lýsa frati á fjórflokkinn. Í þessum kosningum fékk listi utan flokka fyrsta hreina meirihlutann í sögu Akureyrar, tveir nýir flokkar fengu 24% í Kópavogi (annar þeirra var Næstbesti flokkurinn) – og í Hafnarfirði var kjörsókn sú lélegasta í áratugi (65%) og 15% kjósenda mættu á kjörstað til þess að skila auðu, en einungis gömlu flokkarnir fjórir buðu fram. Persónuvinsældir duga skammt til að skýra þessar almennu tilhneigingar.

Vandræði Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hófust 1994 þegar Reykjavíkurlistinn vann borgina. Sumir þakka það persónuvinsældum Ingibjargar Sólrúnar. En ein ástæðan fyrir sameiginlegu framboði var skoðanakönnun sem sýndi að ef andstöðuflokkarnir byðu fram saman myndi Sjálfstæðisflokkur tapa meirihlutanum – annars halda honum. Þessi könnun var tekin áður en Ingibjörg Sólrún varð borgarstjóraefni.

Síðan Davíð hætti 1991 hafa sjö foringjar leitt flokkinn í Reykjavík – og sá áttundi bætist við í vor. Markús Örn hætti rétt fyrir kosningar 1994, en kannanir bentu til slakrar útkomu. Árni Sigfússon tók við og flokkurinn fékk 47% (sem dugði ekki til sigurs þegar andstæðingarnir voru á einum lista, en hafði oft dugað þegar þeir voru í mörgum fylkingum). Árni tapaði líka 1998 (45%). Björn Bjarnason tók við fyrir kosningar 2002 og enn minnkaði fylgið (40%). „Gamli góði Villi“ fékk 42% 2006 og myndaði meirihluta með Framsókn. Hann sprakk fljótlega – og stuttu síðar varð Hanna Birna borgarstjóri. Hún leiddi 2010, flokkurinn fékk 34% sem var miklu betri árangur en í þingkosningunum 2009. Í kosningunum 2014 (Halldór Halldórsson, 26%) og 2018 (Eyþór Arnalds, 31%) var staðfest að flokkurinn ætti nánast enga möguleika á að vinna meirihluta borgarfulltrúa – sem hann hafði haft í 60 ár af 64 frá 1930-94.

Á landsvísu hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið 25% flokkur síðan í Hruni – eftir að hafa verið 40% flokkur í áratugi. Samt hefur Bjarni Benediktsson verið foringi síðan 2010. Hvers vegna hefur honum ekki verið slátrað fyrir fylgisleysi eins og foringjum flokksins í borgarstjórn síðustu 30 ár? Líklegasta svarið er að Bjarna hefur tekist að tryggja flokknum ríkisstjórnarsetu frá 2013-2025 (ef núverandi stjórn heldur). En síðustu 28 árin hefur flokkurinn bara verið í meirihluta í borgarstjórn í tæp fjögur ár. Fyrir það er foringjum refsað – hvort sem þeir eiga einhverja sök á hrakförunum eða ekki.

Ólík hugmyndafræði hefur yfirleitt ekki greint flokka vel í sundur við sveitarstjórnarkosningar. Hefðbundin hægri-vinstri skipting endurspeglast þó eitthvað í áherslum á skatta og umfang opinberrar þjónustu. En í flestum tilvikum deila meirihluti og minnihluti um hvort nægilega mikið hafi verið framkvæmt og þjónustan verið nógu góð – ekki er ágreiningur um markmið.

Leikskólamál voru undantekning frá þessu þar til fyrir aldarfjórðungi eða svo. Ýmsir töldu (einkum í Sjálfstæðisflokki) að leikskólar væru neyðarúrræði fyrir einstæðar mæður og stúdenta, leikskólar væru börnum ekki hollir, betra væri að þau dveldu heima með mæðrum sínum. Þetta var hugmyndafræðilegur ágreiningur. En á tíunda áratug síðustu aldar hvarf hann – síðan hafa deilur snúist um hvort nægilega mikið væri gert í leikskólamálum, hvort meirihlutinn á hverjum tíma stæði sig.

Helsti hugmyndafræðilegi ágreiningurinn í borgarstjórn Reykjavíkur á þessari öld hefur snúist um skipulagsmál. Aðalskipulagið frá 1962 byggði á hugmyndum þess tíma um bílaborg; dreifða byggð og öflugar umferðaræðar. T.d var gert ráð fyrir hraðbrautum yfir Grjótaþorpið og eftir Fossvogsdal – sem reyndar komu aldrei.

Í flestum borgum víðast á Vesturlöndum hefur þessi sýn breyst síðustu áratugi (bæði hjá hægri og vinstri flokkum); meiri áhersla á þétta byggð og almenningssamgöngur – einkabíllinn hefur ekki lengur algjöran forgang. Þessi sjónarmið voru klárlega á dagskrá í borgarstjóratíð Hönnu Birnu – m.a. í samstarfi við flokksbróðurinn Gísla Martein og andstæðinginn Dag B. Eggertsson. Þau sameinuðust t.d. um að vilja flugvöllinn burt og stóðu að alþjóðlegri samkeppni um skipulag Vatnsmýrarsvæðisins. Frá 2010 hefur Dagur haft forystu um breytingar í þessa áttina, nú síðast með áætlunum um Borgarlínu – sem reyndar er studd af bæjarstjórum Sjálfstæðisflokksins í flestum nágrannasveitarfélögunum.

En í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokks voru ýmsir ósammála Hönnu Birnu og vildu halda í grunnhugmyndir aðalskipulagsins frá 1962. Síðan hefur flokkurinn verið klofinn milli þeirra sem aðhyllast nýju sýnina og þá gömlu. Síðustu árin hefur forysta borgarstjórnarflokksins verið höll undir gömlu sýnina, talað um aðför að einkabílnum og gagnrýnt Borgarlínuna. Margir aldraðir karlar úr flokknum hafa verið duglegir við að boða sýn æsku sinnar í Morgunblaðinu – og skammað meirihlutann og hinar nýju áherslur hressilega.

Nýja sýnin á þróun borgarinnar hefur hins vegar líka átt fulltrúa innan borgarstjórnarflokksins. Þar hefur Hildur Björnsdóttir farið fremst í flokki – verið sammála áherslum meirihlutans um þróun borgarinnar og almenningssamgöngur í stórum dráttum. Andstaða hennar við meirihlutann snýst frekar um fjármálastjórn og gagnrýni á að ekki sé nægilegt framboð á leikskólaplássum.

Prófkjör milli Eyþórs og Hildar hefði verið afar forvitnilegt – þar hefði ekki bara verið kosið um einstaklinga heldur um mismunandi hugmyndafræði, ólíka sýn á þróun borgarinnar. En nú er Eyþór hættur í pólitík.

Fær Hildur nýjan keppinaut um forystuna? Og verður þá keppinauturinn úr hópi þeirra sem aðhyllast gömlu sýnina um bílaborg? Hvað gera fótgönguliðarnir sem andæfa Borgarlínu ef Hildur verður borgarstjóraefni? Fylgja þeir flokknum, sitja þeir heima, eða fara þeir yfir í t.d Miðflokk eða Flokk fólksins? Áhugaverðir tímar framundan .


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: