- Advertisement -

Kjarninn: Árekstrar í hentugleika- hjónabandi stjórnarflokkanna

Fjölmiðlar Með réttu eða röngu er rætt um ágreining eða ekki ágreining milli stjórnarflokkanna. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, skrifar um þetta í nýjasta tölublaði blaðsins. Sjá nánar hér.

Þórður rekur nokkur dæmi um hversu ólíkir flokkarnir eru, og þá formennirnir, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þórður skrifar meðal annars: „Fyrst þurfti formaður Sjálfstæðisflokksins að standa keikur við hlið formanns samstarfsflokksins á meðan þeir kynntu gjöf á um 80 milljörðum króna til afmarkaðs hóps vegna óskilgreinds forsendubrests.“

„Í febrúar lagði hópur þingmanna Framsóknarflokksins fram þingsályktunartillögu um að ríkið reisti 700 þúsund tonna áburðarverksmiðju í Helguvík eða Þorlákshöfn. Kostnaðurinn átti að vera allt að 120 milljarðar króna. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra þurfti að stíga fram og drepa málið með því að segja að henni hugnaðist ekki hugmyndin. „Ég er ekki sammála þeirri nálgun sem fram kemur í frumvarpinu og tel það ekki vera hlutverk ríkisins að standa í rekstri áburðarverksmiðju,“ sagði Ragnheiður við visir.is.“

Skömmu síðar lagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkis­ráðherra fram tillögu um að draga aðildarumsókn að Evrópusambandinu til baka, og setti samfélagið á hliðina.“

„Ráðstöfun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætis­ráðherra á um 200 milljóna króna „skúffufé“ eftir geðþótta, þar sem helmingur fór í kjördæmi hans, fór ekki vel í marga sjálfstæðismenn, sem vilja að ríkið noti allt tiltækt fé til að grynnka á skuldum og lækka síðan skatta.“

„Ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra um að flytja Fiskistofu, og starfsfólk hennar, hreppaflutningum til kjördæmis forsætisráðherra var svo enn einn fleygurinn í hjónabandið. Fjölmargir þingmenn og sveitarstjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins á höfuðborgarsvæðinu hafa mótmælt aðgerðinni harðlega og komið því skýrt á framfæri að þeim þyki hún ekki boðleg.“

„Á síðustu dögum virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera búinn að fá nóg af því að kyngja aðgerðum sem eru beinleiðis í andstöðu við stefnu hans. Nú ætlar hann að hnykla vöðvana og koma sínum áherslum á framfæri. Það sást ágætlega í stóra Costco-málinu, þar sem Ragnheiður Elín Árnadóttir tók mjög jákvætt í að bandaríski verslunarrisinn opnaði verslun hérlendis.“

„En stóra skrefið sem Sjálfstæðisflokkurinn tók til að marka sér stöðu átti sér stað í síðustu viku þegar Bjarni Benediktsson tilkynnti um að samið hefði verið við ýmsa ráðgjafa vegna losunar fjármagnshafta.“

„Þessir árekstrar sem augljóslega eiga sér stað í hentugleikahjónabandi stjórnarflokkanna fara ekki framhjá kjósendum. Í þingkosningunum vorið 2013 fengu þeir samanlagt 51,1 prósent atkvæða. Ef kosið yrði í dag myndu þeir fá 38 prósent.“

Nýjast eru viðbrögð Elsu Láru Arnardóttur Framsóknarflokki við breytingum Kristjáns Þórs Júlíussonar á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðunum. Elsa Lára skrifaði: „Afar brýnt er að mínu mati að endurskoða þessa ákvörðun og hefja tafarlaust samvinnu og samráð við íbúa sveitarfélaganna sem hér um ræðir.“ Og: Ef eitthvað bendir til þess að þjónustustig verði lækkað eða fjármagn verði minnkað þá er ekkert annað hægt að gera en að leggja fram breytingu á lagafrumvarpi sem tryggi fjármagn, þjónustustig og fleira sem skiptir máli í þessu samhengi.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: