- Advertisement -

Bjarni reiður vegna tillögu um Samherja

Þetta er langt frá því að vera boðleg tillaga og það er engan veginn hægt að styðja hana.

Hvers vegna brást Bjarni Benediktsson svo illa við beiðni um skýrslu um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi? Bjarni gerðir tvisvar grein fyrir atkvæði sínu þegar málið var afgreitt á Alþingi. Margir þingmenn báru fyrir sig, þegar þeir töluðu gegn óskum um skýrsluna að þeir segðu nei vegna greinargerðarinnar. Hún er birt óstytt neðst í fréttinni.

Bjarni gerði, sem áður segir, tvisvar grein fyrir atkvæði sínu. Í fyrra sinnið sagði hann:

„Þessi skýrslubeiðni er ekkert annað en ákveðið lýðskrum sem fer fram í kjölfarið á alvarlegu máli sem upplýst hefur verið um og er til skoðunar og rannsóknar. Hérna er þyrlað upp pólitísku moldviðri út af ágreiningsefni sem hefur verið um veiðigjöld á Íslandi og því haldið fram að útgerðin skammti sér veiðigjöld eftir því sem hún telur hæfilegt hverju sinni. Hérna er verið að rugla saman gerólíkum kerfum og beðið um að þingið samþykki að þessi gerólíku kerfi séu tekin til samanburðar og að í samanburðinum séu meintar mútugreiðslur hafðar með í reikningnum til að þetta komi sem best út í pólitískri umræðu á Íslandi. Þetta er langt frá því að vera boðleg tillaga og það er engan veginn hægt að styðja hana.“

Bjarna var órótt kom aftur í ræðustól. Fyrst er hljóðdæmi sem sýnir þungan í umræðunni:

Og hér er seinni ræða Bjarna:

„Ég ætla að stíga aftur upp til að ítreka að þessi tillaga er ekkert annað en lýðskrum. Menn láta að því liggja að hægt sé að gera samanburð á veiðigjaldi sem greitt er á Íslandi og annars staðar. Hér er hins vegar ekkert veiðigjald greitt en við erum með álögð veiðigjöld. Menn bjóða ekki í veiðiréttinn í einstökum tegundum. Þetta er allt annað mál og veiðigjaldið er ólíkt eftir tegundum og með séríslenskum lögum höfum við ákveðið hvernig við drögum af hagnaði fyrirtækjanna eftir uppgjör fyrir hverja og eina tegund. Þegar menn láta að þessu liggja er eins og þeir gefi sér að allt annað sé óbreytt. Það er allt eins í Namibíu, ekki satt, og Íslandi, stimpilgjöld, tekjuskattur og launaskattar? Hvernig eru kjörin um borð í Namibíu? Hvernig er olíuverðið? Hvernig er skiptaréttur sjómanna í Namibíu? Ætla menn að taka þetta allt með í reikninginn? Hafa menn í alvörunni áhuga á því að spyrja alvöruspurninga eins og þessarar hér: Hvernig gengur að skapa verðmæti fyrir íslenska þjóð úr íslenskum sjávarútvegi? Hvernig gengur það? Kannski ættu menn einfaldlega að spyrja: Hvort landið hefur meira út úr veiðum, Ísland eða Namibía? Þetta er ekkert annað en lýðskrum. Það er verið að bera saman gjörsamlega ósambærilega hluti og menn eru að reyna að draga inn í umræðuna vegna Samherjamálsins hluti sem eiga ekkert erindi og veita engar raunverulegar upplýsingar um stöðu fiskveiða á Íslandi.“

Nú er rétt að hleypa Sigurði Inga að. Honum var ekki skemmt:

„Við höfum á síðustu mánuðum og misserum farið í atkvæðagreiðslur um skýrslubeiðnir af mismunandi undarlegum toga. Hér er einhvers konar pólitískur loddaraskapur á ferð. Það er ekkert að því að fá slíkar upplýsingar fram og bera þær saman en þegar menn biðja um skýrslu eru þeir yfirleitt að biðja um miklu umfangsmeiri verkefni, stundum allt of stór sem hefur jafnvel tekið mikinn mannafla og heilu árin að vinna. Þá eru menn í raun og veru að fara fram á rannsóknarskýrslu upp á nokkur hundruð milljónir. Ég held að hér sé því miður um að ræða pólitískan loddaraskap.“

Hin umdeilda greinargerð:

Með skýrslubeiðni þessari er óskað eftir því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytji Alþingi skýrslu um samanburð á veiðigjöldum Samherja hér á landi og í Namibíu. Í 2. mgr. 7. gr. laga um veiðigjald, nr. 145/2018, er kveðið á um að Fiskistofa skuli árlega birta upplýsingar um álagningu veiðigjalds og að upplýsingar um álagningu og innheimtu veiðigjalds á hvern og einn greiðanda séu opinberar upplýsingar sem öllum er heimill aðgangur að. Þannig teljast greiðslur veiðigjalda til opinberra málefna skv. 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis.

Ákvörðun veiðigjalda hefur lengi verið ágreiningsmál í íslenskum stjórnmálum. Ekki hefur verið meiri hluti fyrir því að láta gjald fyrir afnot af sameiginlegri auðlind landsmanna ráðast á markaði þar sem tiltekinn hluti veiðiheimilda yrði ár hvert boðinn til sölu til ákveðins tíma. Þess í stað hefur gjaldið verið ákveðið með lögum, sem sætt hafa reglulegum breytingum.


Endurgjald fyrir einkaafnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar hefur þannig verið háð pólitísku mati. Það pólitíska mat hefur aftur í verulegum atriðum byggst á áliti þeirra hagsmunaaðila í útgerð sem eru fulltrúar þeirra fyrirtækja sem gjaldið greiða. Með öðrum orðum hafa verið bein tengsl á milli þess sem útgerðirnar hafa talið sig geta greitt og þess sem meiri hluti á Alþingi hverju sinni hefur talið að þær gætu greitt.

Þær upplýsingar sem fram komu í svokölluðum Samherjaskjölum, sem RÚV fjallaði um í fréttaskýringaþættinum Kveik og gefa tilefni til að bera saman hvað eitt af stærstu og áhrifaríkustu fyrirtækjunum á þessu sviði er reiðubúið til að greiða fyrir veiðirétt á Íslandi og í Namibíu. Eftir yfirlýsingar ráðherra bæði í fjölmiðlum og á þingi er afar ólíklegt að ríkisstjórnin hafi frumkvæði að því að kanna þennan mikilvæga þátt málsins til hlítar.

Samanburður af þessu tagi á að geta stuðlað að málefnalegri umræðu um það mat sem ákvörðun veiðigjalda byggist á.

Í Samherjaskjölunum kemur fram að greiðsla fyrir veiðirétt í Namibíu hefur byggst á beinum greiðslum fyrir veiðirétt og sérstökum greiðslum til þeirra sem ráðið hafa mestu um úthlutun veiðiréttarins.

Að mati skýrslubeiðenda færi best á því að samanburðarathugunin verði unnin af óháðum aðila. Rétt þykir að þeir óháðu aðilar taki heildarfjárhæð beggja þessara þátta með í samanburðinum. Einnig telja skýrslubeiðendur æskilegt að samráð verði haft við þingflokka um þá óháðu aðila sem fengnir verða í þessa þýðingarmiklu vinnu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: