- Advertisement -

„Blóðmerar og brottkast“

…ráðherrar í ríkisstjórninni hafa á stjórnmálaferli sínum talað gegn virku eftirliti…

„Það var ekki fallegt að sjá myndefni á dögunum þar sem níðst var á hryssum þegar tekið var blóð úr þeim. Þetta var ekkert annað en óhugnanlegt dýraníð. Enn og aftur vakna upp spurningar á Íslandi um slælegt eftirlit. Matvælastofnun hefur sjálf í umsögn til þingsins vottað eigið eftirlit með þessum iðnaði og sagt að þar stangist ekkert á við lög. Myndbandið segir okkur aðra sögu. Í vikunni fengum við svo staðfestingu á því að það sem hingað til hefur verið kallað óverulegt brottkast í sjávarútvegsráðuneytinu reyndist í raun vera verulegt brottkast. Með því að nýta dróna hefur Fiskistofa fjölgað brottkastsmálum úr u.þ.b. tíu á ári að jafnaði í 120 það sem af er ári. Fiskistofa, sem oft hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir slælegt eftirlit, hefur með breyttum vinnubrögðum fært okkur aðra sýn á umgengni við sjávarauðlindina,“ sagði Sigmar Guðmundsson á Alþingi í gær.

„Stundum standa eftirlitsstofnanir í lappirnar, til að mynda þegar Persónuvernd sló á fingur fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem reyndi að fela sig á bak við persónuverndarlög þegar upplýsa átti þingið um mikilvægt mál. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins hefur vakið máls á því að hann telji að stjórnvöld standi ekki með eftirlitsstofnunum. Þau orð voru nánast eins og fyrri partur í vel ortri vísu sem seðlabankastjóri botnaði stuttu síðar með þeim fleygu orðum að Íslandi væri að miklu leyti stýrt af sérhagsmunahópum.

Ég nefni þetta hér vegna þess að ráðherrar í ríkisstjórninni hafa á stjórnmálaferli sínum talað gegn virku eftirliti og m.a. sagt galið að forgangsraða í þágu eftirlitsiðnaðarins eins og það var kallað. Það er mikið talað um að efla eftirlit í stjórnarsáttmálanum en það væri oflof og jafnvel háð að segja að það endurspeglaðist í fjárlagafrumvarpinu. Blóðmerar og brottkast færa okkur heim sanninn um að bit- og tannlausar eftirlitsstofnanir eru lítils virði. Ábyrgðin liggur hins vegar hjá þeim sem stjórna landinu,“ sagði Sigmar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: