- Advertisement -

Ríkasta eina prósentið mengar þrisvar sinnum meira en öll Afríka

„…og er þess vegna upp á rússneskt gas og olíu komin og fjármagnar þess vegna stríðsrekstur Pútíns.“

Andrés Ingi Jónsson.
„Með því að hafa dregið lappirnar í loftslagsmálum bera stjórnmálamenn nefnilega ekki bara ábyrgð á beinum afleiðingum loftslagsbreytinga heldur svo miklu meiri hörmungum.“

„Á þeim rúmlega 100 dögum sem eru liðnir frá loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow er ríkasta eina prósentið í heiminum búið að losa jafn mikið af gróðurhúsalofttegundum og öll Afríka mun gera á þessu ári. Þessi misskipting í heiminum er dregin skýrt fram í skýrslu sem kom út í gær frá sérfræðingahópi milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar þar sem afleiðingar loftslagsbreytinga eru fókusinn,“ sagði Andrés Ingi Jónsson Pírati á Alþingi í gær.

„Það eru kannski ekki ný tíðindi í þessari skýrslu, hún var síðast gerð fyrir sjö árum en hún er miklu skýrari. Það er allt afdráttarlausara í þessari skýrslu en þeirri sem kom út fyrir sjö árum og vel að merkja eru árin sjö sem eru liðin frá 2014 þegar síðasta skýrsla kom út heitustu sjö ár mannkynssögunnar,“ sagði Andrés.

Sá reikningur var kominn á gjalddaga 2020…

„Það kostar að bregðast við loftslagsbreytingum og það kostar enn þá meira að gera það ekki. Skýrslan sýnir að aðgerðaleysi ríkisstjórna heims á síðustu árum og áratugum til að bregðast við loftslagsvánni hefur orðið þess valdandi að helmingur mannkyns, 3,6 milljarðar fólks, búa nú þegar við afleiðingar loftslagsbreytinga, oft mjög alvarlegar. Aðgerðaleysið endurspeglast líka í því að á ráðstefnu í Kaupmannahöfn 2009 sammæltust ríku löndin um að leggja 100 milljarða bandaríkjadala af hendi í aðgerðir gegn afleiðingum loftslagsbreytinga til hinna fátækari. Sá reikningur var kominn á gjalddaga 2020 og þau sviku þetta loforð. Það aðgerðaleysi birtist líka á ólíklegustu stöðum eins og því að Evrópa er ekki búin að skipta yfir í grænu orkuna sem þarf að gera til að bregðast við loftslagsvánni og er þess vegna upp á rússneskt gas og olíu komin og fjármagnar þess vegna stríðsrekstur Pútíns. Með því að hafa dregið lappirnar í loftslagsmálum bera stjórnmálamenn nefnilega ekki bara ábyrgð á beinum afleiðingum loftslagsbreytinga heldur svo miklu meiri hörmungum,“ sagði Andrés Ingi Jónsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: