- Advertisement -

„Hvernig getum við stoppað þann hrylling“

Niðrandi tal, þvingun, andlegt og líkamlegt ofbeldi, hryllingur.

„Talið er að um 5.000 börn hafi dvalið á um 30 vistheimilum á vegum hins opinbera frá síðustu öld. Enn fleiri hafa svo bæst við frá aldamótum,“ sagði Jódís Skúladóttir, Vinstri grænum, á Alþingi.

„Sagan spannar tímabil frá árinu 1947 til dagsins í dag, 75 ára saga. Breiðavík, Bjarg, Heyrnleysingjaskólinn, Kópavogshæli, Unglingaheimili ríkisins, Varpholt, síðar Laugaland, og mörg fleiri. Nýverið kom út skýrsla Gæða- og eftirlitsstofnunar um meðferðarheimilið Varpholt, síðar Laugaland. Skýrslan tónar nokkuð vel við aðrar úttektir sem gerðar hafa verið á öðrum heimilum í gegnum tíðina. Niðrandi tal, þvingun, andlegt og líkamlegt ofbeldi, hryllingur. Rauður þráður í rekstri þessara heimila er að starfsfólk hefur hvorki haft menntun né þekkingu til að vinna með börnum sem oft og tíðum eiga flókna sögu og þurfa mikinn stuðning. Eftirlitsskylda barnaverndaryfirvalda brást þessum börnum. Mörg þeirra sögðu frá en fengu ekki áheyrn. Á bak við þessa sögu eru manneskjur, lítil börn og ungmenni sem tekin hafa verið frá heimilum sínum og fjölskyldum, sem í dag er metið það úrræði sem er mest íþyngjandi. Staða þessa fólks í dag er að sjálfsögðu misjöfn en ljóst er að áhrifin á líf þessara einstaklinga eru gríðarleg, mörg einfaldlega lifðu ekki af þær afleiðingar sem dvölin hafði. Þessi mál eru líka löðrandi í pólitískum afskiptum, brotum á trúnaði og afskiptum yfirmanna. Það á bæði við um afskipti af málum meðan á þeim stóð en einnig þegar mál hafa verið til rannsóknar. Ein umræða þessu tengd er um greiðslu sanngirnisbóta og tel ég mikilvægt að einstaklingum sem orðið hafa fyrir svo grófum brotum af hálfu hins opinbera skuli reiknast bætur. Annað væri óeðlilegt. En hvenær er komið nóg? Hvað munum við þurfa að greiða út af sanngirnisbótum eftir fimm ár, tíu eða 20? Hvernig getum við stoppað þann hrylling sem hefur liðist hér í 75 ár? Þetta verður að stoppa.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: