- Advertisement -

Afborganir hafa hækkað um þrjátíu prósent meðan verðbólgan er níu prósent

Þeir hafa sogað til sín fjármagn í krafti valds síns langt umfram verðbólgu og vaxtaþáttinn.

Inga:

Eina ástæðan fyrir því að þessi húsnæðisliður hefur verið látinn hanga inni í vísitölunni — að vísu eini staðurinn í heiminum sem þessi mæling fer fram á því formi sem gerist hér er að ef sú staða kæmi að fasteignaverð á markaðnum færi að lækka þá myndu fasteignaeigendur, hamingjan góða, tapa einhverjum krónum.

„Þessari verðtryggingu var komið á með einu pennastriki. Það vafðist ekki fyrir þeim á þeim tíma að setja verðtryggingunni á en ólíkt þeirri verðtryggingu sem er á neytendalánum nú, og eingöngu þeim, og lánum, þá var það áður svo að laun voru líka verðtryggð. Fólk var líka með verðtryggingu á laununum sínum, sem fylgdi þá bara þessari vísitölu algjörlega leynt og ljóst, en einhverra hluta vegna fannst þeim voða sniðugt að rjúfa þetta samband, klippa launin frá og lofa launþegunum að sitja eftir,“ sagði Inga Sæland, Flokki fólsins.

Hún, ásamt öðrum þingmönnum flokksins, hafa lagt fram lagafrumvarp þar sem gert er ráð fyrir að húsnæði verði ekki hluti af neysluvísitölunni. „Annað sem er mjög athyglisvert er að þrátt fyrir allt það sem ég segi hér, blússandi vexti, verðbólgu og nefnið það bara, allt fer hækkandi, þá hækka bankarnir samt sem áður lánin sín og afborganirnar langt umfram verðbólgu og vexti. Til dæmis hefur greiðslubyrðin af litlu láni sem ég er með í Arion banka hækkað um 30% síðan í vor. Hvernig má það vera þegar vextirnir af því eru ríflega 7% og verðbólgan mælist ríflega 9%? Að vísu er lánið óverðtryggt en það breytir samt sem ekki þeirri staðreynd að greiðslubyrðin af láninu er búin að hækka um 30%, langt umfram verðbólgu og vextina. Bankarnir eru að soga til sín og ég vil halda því fram að þetta sé ósvífið. Þeir hafa sogað til sín fjármagn í krafti valds síns langt umfram verðbólgu og vaxtaþáttinn. Maður hefur kannski óvart hnerrað inni í einum þeirra og þá hefur 100.000 kr. aukaskatti verið kastað í mann fyrir það. Álögurnar sem eru lagðar á viðskiptavini þessara banka eru orðnar með slíkum ólíkindum, þetta er svo opið í báða enda, að maður er í rauninni varla farinn að átta sig á því hvað í ósköpunum er í gangi þarna,“ sagði Inga.

„Þetta er lítið frumvarp sem skiptir alla ofboðslega miklu máli. Eina ástæðan fyrir því að þessi húsnæðisliður hefur verið látinn hanga inni í vísitölunni — að vísu eini staðurinn í heiminum sem þessi mæling fer fram á því formi sem gerist hér — er að ef sú staða kæmi að fasteignaverð á markaðnum færi að lækka þá myndu fasteignaeigendur, hamingjan góða, tapa einhverjum krónum. Ég bið nú bara þann einstakling og háttvirtan þingmann sem kemur auga á það að fram undan sé einhver lækkun á fasteignamarkaði að gefa sig einfaldlega fram en styðja að öðrum kosti þetta frumvarp og hjálpa okkur að afnema og henda þessum húsnæðislið út úr vísitölunni.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: