- Advertisement -

Segir ríkisstjórnina skoða leiguþak – efast um fullyrðingar leigjenda

„Við höfum hins vegar nokkuð sterkar vísbendingar um það að á árunum 2018, 2019 og sérstaklega 2020 og 2021 hafi markaðurinn batnað mjög mikið.“

Sigurður Ingi Jóhannsson.

„Samkvæmt upplýsingum Leigjendasamtakanna er raunveruleg staða leigjenda mun verri en tölur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sýna og ég vil leyfa mér að efast um að 10% leigjenda telji sig búa við húsnæðisöryggi í dag, hvað þá 65%. Samfélagið hefur kallað eftir því að hér verði sett leigubremsa líkt og þekkist víða um Evrópu og Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp þess efnis. Myndi hæstvirtur ráðherra styðja slíka aðgerð? Og að gefnu tilefni, hæstvirt ríkisstjórn, ég skora á ykkur að hætta að skattleggja fátækt,“ sagði Inga Sæland á Alþingi og beindi orðum sínum að Sigurði Inga Jóhannssyni Framsóknarflokki. Sigurður Ingi steig í ræðustól og sagði:

Þess vegna kláruðum við frumvarp um svona skráningarskyldu sem kláraðist ekki alveg fyllilega…

„Ég þakka háttvirtum þingmanni að taka upp leigjendahluta húsnæðisins í þessari umræðu og það er rétt sem háttvirtur þingmaður var að vísa í í greinargerð með fjármálaáætlun um þessa vinnu. Á síðasta ári hækkuðum við í tvígang húsnæðisbætur, sennilega um allt að 24%, fyrstu um u.þ.b. 10% á miðju ári í fyrra til að takast á við vaxandi verðbólgu og síðan milli 13 og tæplega 14% núna um áramótin. Það sem við þó vitum og það getur vel verið að það sé munur á því sem Leigjendasamtökin segja, ég fékk einmitt þessa skýrslu í dag sem háttvirtur þingmaður vísaði til. Þau hafa reyndar á undanförnum árum sagt að ástandið á leigumarkaði sé mjög erfitt og slæmt og hafi verið það í mörg ár. Við höfum hins vegar nokkuð sterkar vísbendingar um það að á árunum 2018, 2019 og sérstaklega 2020 og 2021 hafi markaðurinn batnað mjög mikið og verð lækkað vegna Covid og fleiri íbúða sem buðust,“ sagði hann.

…það sem ég er að segja er að staðan hefur ekki verið allan tímann svona slæm…

„En það er rétt og ég ætla ekki að draga úr því að á síðastliðnu ári, vegna verðbólgunnar, hefur þessi kostnaður vaxið mjög hratt og ég tek undir áhyggjur um að það geti haldið áfram að hækka nokkuð hratt. En það sem ég er að segja er að staðan hefur ekki verið allan tímann svona slæm en hún er að versna og þess vegna höfum við verið með þennan starfshóp gangandi. Þess vegna kláruðum við frumvarp um svona skráningarskyldu sem kláraðist ekki alveg fyllilega eins og við vildum upphaflega en fór þó út úr þinginu og við fáum betri upplýsingar. Það þarf ekki bara þinglýsingar, það eru fleiri leiðir til þess að fá upplýsingar til þess að við höfum þessar opinberu upplýsingar,“ sagði formaður Framsóknar.

„Varðandi leigubremsu eða einhvers konar leiguþak eða slíkar hugmyndir þá er það einmitt eitt af því sem starfshópurinn er að skoða og það er ástæða fyrir því, því að ráðherra styður það að fara þá leið.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: