- Advertisement -

Ætla fólki að lifa á 83.233 á mánuði

Guðmundur Ingi Kristinsson:
„Á hvaða launum og í hvaða mismunarþoku eru þeir fastir sem búa til svona óréttlátt kerfi.“

„Er ekki kominn tími til að reikna upp rétta framfærslu? Hvers vegna erum við með í frumvörpum til laga og samþykkjum einnig upphæð til framfærslu fyrir einstakling sem er ekki bara undir fátæktarviðmiðum heldur er sárafátækt? Ríkisstjórnin telur einstakling geta lifað á t.d. 83.233 kr. á mánuði og það í formi fæðingarstyrks, ef hann er utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi. Einstaklingur getur ekki lifað á Íslandi af þeirri upphæð í um viku, hvað þá mánuð og þá ekki einstaklingur sem er að fæða barn,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki fólksins, á Alþingi í dag.

„Fæðingarstyrkur í fullu námi skal aldrei vera lægri en 190.747 kr. á mánuði, fæðingarorlof í 25–40% starfi á aldrei að vera lægra en 137.638 kr. á mánuði. Vinnandi einstaklingur í 50–100% starfi fer aldrei hærra en 600.000 kr., og aldrei lægra en 184.190 kr. Og allar eru þessar tölur fyrir skatt. Lægstu lífeyrislaun eru um 260.000 kr. á mánuði fyrir skatt og þeir sem eru í búsetuskerðingu fá 90% af þeirri upphæð. Atvinnulausir hafa 300.000 kr. að lágmarki, lágmarkslaun eru 350.000 kr., listamenn eru með rúmlega 400.000 kr.,“ sagði Guðmundur Ingi.

„Á hvaða launum og í hvaða mismunarþoku eru þeir fastir sem búa til svona óréttlátt kerfi þar sem sumir hafa það gott en aðrir eru dæmdir til að lifa við sárafátækt? Hver er rétta framfærslan? Hvers vegna vill ekki ríkisstjórn eftir ríkisstjórn reikna rétta framfærslu? Hvað er að í sálartetri þeirra sem geta komið á og viðhalda svona mismunarkenndu óréttlæti varðandi framfærslu fólks? Er ekki kominn tími til að hætta þessu óréttlæti, sjá til þess strax að rétta framfærslan sé fundin og að enginn þurfi að svelta, tóra eða engjast í fátæktargildru lengur, hvað þá í sárafátækt? Hysjum upp um okkur manngæskuna hér á þingi, og komum þessu í lag, því að annað er okkur til háborinnar skammar,“ sagði Guðmundur Ingi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: