- Advertisement -

Bjarni er og verður allsráðandi

Ríkisstjórnin hefur opinberað vilja sinn og eðli. Ef hægt er að metast um hver foringjanna hefur haft sigur í stefnu ríkisstjórnarinnar er augljóst að það er Bjarni Benediktsson. Hann stýrir harðri hægri stjórn í nafni Katrínar Jakobsdóttur. Árangur Bjarna er mjög eftirtektarverður og skipar honum á fremsta bekk formanna Sjálfstæðisflokksins. Og það frá upphafi.

Bjarni nær fram lækkun bankaskatts, tryggingagjalds, lagar fjármagnstekjuskatt að verðbólgu, einum allra skatta og skattalækkunum til handa almenningi sem gagnast þeim tekjuhæstu margfalt á við þá tekjulægri. Ekki er að sjá að talsfólk hinna flokkanna hafi svo mikið sem getað stöðvað Bjarna í einu einasta atriði. Sigur hans virðist algjör.

Aumt er hluskipti Sigurðar Inga Jóhannssonar. Í desember síðastliðnum sagði hann að vegatollar séu ekki leið sem hann vilji fara í fjármögnun samgönguúrbóta. Bjarni skammtar honum naumt úr hnefa og rekur hann út á vegina þar sem hann á að rukka vegfarendur fyrir að aka um hina ónýtu vegi. Eðlilega bitnar það mest á fátækum og þeim sem þurfa mest að keyra um. Til þess er leikurinn jú gerður.

Katrín sem var svo brött fyrir hálfu ári er nú fullkomlega niðurlægð. Bjarni eirir engu. Katrín þarf, einhvern daginn, að mæta baklandi sínu. Það verður ekki átakalaust. „Getum við sagt að samfélag þar sem stórum hópum fólks er haldið í fátæktargildru sé réttlátt? Fólks sem hefur til dæmis ekki valið sér þau örlög að verða óvinnufært?“ Þetta eru hennar óbreyttu hálfs árs gömlu orð. Þá var hún í stjórnarandstöðu og Bjarni sat í stól forsætisráðherra.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Bjarni stöðvar allt það sem getur bætt kjör þeirra verst stöddu. Katrín verður að kyngja þeim bita sem svo öðrum.

Bjarni er að verða einn mesti „afreksmaður“ íslenskra stjórnmála. Hið minnsta síðustu áratuga. Þrátt fyrir að fylgið við Sjálfstæðisflokkinn minnki í hverjum kosningum ná Bjarni og flokkurinn sífellt meiri tökum á íslenskum stjórnmálum. Því lengur sem Katrín og Sigurður Ingi láta fara svona með sig því erfiðara verður fyrir þau að snúa til baka. Baklandið veikist.

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: