- Advertisement -

Bjarni, Katrín og hafragrauturinn

Ef einstætt foreldri, öryrki eða sá atvinnulausi á engar 8.000 kr. á mánuði þá kaupir hann ekki neitt í matinn.

„Fjármálaráðherra tók dæmi nýlega í umræðunni við mig um fátækt, um stöðu einstæðs foreldris með tvö börn. Telur hann að breytingar á barnabótum í tíð þessarar ríkisstjórnar hafi styrkt stöðu einstæðra foreldra með 300.000 kr. í tekjur á mánuði um meira en 100.000 kr. á ári,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi í dag.

„Ef við viljum mæla í það í hafragrautsskálum eru það margar skálar. Það er hægt að kaupa ótrúlega margar hafragrautsskálar fyrir hækkun á barnabótum, sagði fjármálaráðherra. En ef einstætt foreldri, öryrki eða sá atvinnulausi á engar 8.000 kr. á mánuði þá kaupir hann ekki neitt í matinn. Er ríkisstjórnin með á dagskrá sinni núna að gera eitthvað fyrir þennan fámenna hóp fátækra, eins og fjármálaráðherra telur hópinn vera? Nei. Er þeirra tími kominn? Nei. Hvers vegna ekki? Það er ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir þennan hóp núna. Nei, ekkert, því miður.“

Næst sneri Guðmundur Ingi sér að Katrínu Jakobsdóttur:

„Hæstvirtur forsætisráðherra sagði í gær í óundirbúinni fyrirspurn við mig að hún gæti talið upp ýmislegt, m.a. úrbætur handa tekjulægstu örorkulífeyrisþegunum. Hún segir að ríkisstjórnin hafi dregið úr skerðingum, lækkað skatta, sérstaklega á tekjulægsta hópinn. Já, ríkisstjórnin lækkaði skattprósentuna með hægri hendinni en kom svo og lækkaði persónuafsláttinn með þeirri vinstri. Með þeirri hægri vinstri snú sýndarmennsku tók hún til baka stóran hluta skattalækkunarinnar. Ef henni hefði verið umhugað um fátækt fólk hefði hún látið persónuafsláttinn í friði, hækkað hann og þá eingöngu fyrir þá tekjulægstu eins og henni bar að gera.“

Og svo þetta: „Hvar á að fá peninga fyrir þá sárafátæku, spyr fjármálaráðherra. Hann spyr ekki þeirrar spurningar þegar hann dælir milljörðum króna til fyrirtækja sem greiða sér milljarða í arð. Þá milljarða ásamt þeim milljarða króna hækkunum sem auðlindaskattur gæti skilað ríkinu á nota til að útrýma fátækt. Þar er peningana að finna, hæstvirtur fjármálaráðherra.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: