- Advertisement -

Bjarni segir hag eldri borgara hafa stóraukist í sinni tíð í fjarmálaráðuneytinu

Guðmundur Ingi Kristinsson.

„Þess vegna er það þannig að sá hópur sem er hér sérstaklega settur á dagskrá í þessum fyrirspurnatíma hefur líklega aldrei í íslenskri sögu haft jafn mikið milli handanna. Og þetta á við um allar tekjutíundirnar,“ sagði Bjarni Benediktsson meðal annars þegar hann svaraði Guðmundi Inga Kristinsson um stöðu fátækra eldri borgara.

„Staðreyndin er sú að ég get séð greiðslur til eldri borgara sem eru undir 300.000 kr. Það er alveg sama hvað hæstvirtur fjármálaráðherra talar um, það er staðreynd. Hann vill alltaf fara í meðaltöl,“ sagði Guðmundur Ingi.

Og hélt áfram: „Hvað ver ríkið miklum fjármunum í að standa undir skuldbindingum gagnvart eldri borgurum? Sú upphæð nemur aðeins 2,6% af vergri landsframleiðslu. Annars staðar á Norðurlöndunum er hlutfallið 5,4–11% og meðaltal OECD-landanna er 8,2%. Sem sagt: Við erum að setja brotabrot til eldri borgara miðað við önnur lönd og OECD. Hvað segir hæstv. fjármálaráðherra um þetta og hvernig í ósköpunum getur hann sagt það hér í ræðustól að þeir sem eru með undir 300.000 kr. á mánuði hafi það gott?“

Bjarni sagði síðan: „Ég sagði það sérstaklega áðan að við getum skoðað þetta inni á tekjusagan.is fyrir hverja einustu tekjutíund. Skoðið lægstu tekjutíundina, næstlægstu, þriðju lægstu, fjórðu lægstu — allar þessar tekjutíundir hafa stóraukið ráðstöfunartekjur sínar á meðan ég hef verið fjármálaráðherra. Þannig er að útgreiddur ellilífeyrir hefur farið úr því að vera innan við 40 milljarðar á ári yfir í 100 milljarða á ári. Og hvert heldur hv. þingmaður að þessir peningar fari?“

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: