- Advertisement -

„Borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík ullar einfaldlega á ríkisstjórnina“

Nota peningana sem áttu að fara í Sundabraut í það að fjarlægja flugvöllinn úr Vatnsmýri.

„Ríkisstjórnin lét hafa sig í að undirrita svokallaðan samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, sem við ræddum talsvert hér fyrr í sumar. Það virðist hafa verið gert fyrst og fremst til að greiða nokkurs konar lausnargjald í formi ótrúlega hás styrks frá ríkinu til framkvæmda vegna borgarlínu. Lausnargjald, segi ég vegna þess að með þessu átti að losna um aðrar framkvæmdir sem margar hverjar hafa beðið allt of lengi, sumar jafnvel áratugum saman. En ekki var ríkisstjórnin fyrr búin að láta plata sig til að undirrita þennan sáttmála og koma honum í gegnum þingið en að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík ullar einfaldlega á ríkisstjórnina og útskýrir að ekki standi til að standa við þann hluta samkomulagsins, sem var þó mjög jákvæður, þ.e. hluti á borð við Sundabraut. Formaður skipulagsráðs Reykjavíkur gengur meira að segja svo langt að segja að skynsamlegra væri að nota peningana sem áttu að fara í Sundabraut í það að fjarlægja flugvöllinn úr Vatnsmýri,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Alþingi.

Hann snéri sér næst að Bjarna Benediktssyni:

„Því spyr ég hæstvirtan fjármálaráðherra: Hvernig ætlar ráðherrann, sem fer með fjárhirslur ríkisins, að bregðast við þessu? Nú hefði maður haldið að það væri svo sem hvort eð er orðið ljóst að ekki er lengur svigrúm í ríkisrekstrinum fyrir verkefni á borð við borgarlínu, það þurfi að nýta það fjármagn sem til er í arðbær verkefni, í verkefni sem eru hagkvæm en ekki í óhagkvæm eilífðarvandamál á borð við borgarlínu. En hvernig hyggst hæstvirtur fjármálaráðherra bregðast við þessum tilburðum borgarinnar, sem sýnir það eina ferðina enn að hún fer einfaldlega sínu fram? Þó að ríkið láti stöku sinnum plata sig til að gera einhvers konar samkomulag, hvort sem það er um flugvöllinn eða annað, þá fer borgin sínu fram. Er ekki tímabært að bregðast við, hæstvirtur fjármálaráðherra?

Bjarni:

Bjarni var ekkert sérstaklega skýr þegar hann svaraði. Hann sagði þó þetta:

„Ég ætla að vera alveg skýr varðandi það að ef upp kemur mikill ágreiningur um þetta samstarfsverkefni, sem ég lít á að þetta sé, þá hefur það auðvitað afleiðingar. Ég sé ekki fram á að þingið hafi áhuga á því að einungis hluti samkomulagsins gangi upp en allt annað sitji á hakanum. Af hálfu ríkisins hefur það verið alveg skýrt að þátttaka í uppbyggingu á greiðum almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu, sem er mikilvægt mál, er háð því að það leysist úr þeim stóru, erfiðu álitamálum sem við vitum hver eru á höfuðborgarsvæðinu.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: