- Advertisement -

Dýrasta hvíldarinnlögn sögunnar

Davíð Oddsson gefur ekki mikið fyrir Þorvald Gylfason. Og öfugt. Staksteinar Davíðs og Moggann eru brúkaðir til að hnýta í Þorvald. Þorvaldur hefur áður skotið föstum skotum að Davíð. Hér að neðan er stuðst við grein sem birt var í Mannlífi árið 2008.

Fyrst að Staksteinum dagsins:

„Hverj­um datt í hug og kom þeirri stórfurðulegu hug­mynd á fram­færi að vel færi á því að um­rædd­ur hag­fræðing­ur yrði ráðinn í þetta starf? Kom þessi hug­mynd frá ein­hverj­um hér á landi, eða fædd­ist hún er­lend­is (sem verður að telj­ast ólík­legt í meira lagi)?“

Davíð skuldar Þorvaldi fastar högg en þetta. Hér á eftir fer merkilegt viðtal við Þorvald. Meira um þetta síðar í dag:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Seðlabankinn er og hefur lengi verið mjaltavél handa stjórnmálastéttinni.

Það hefur verið gagnrýnt að stjórnmálamenn hafa fundið sjálfum sér farveg í Seðlabankanum. Þegar þeir hafa hætt í stjórnmálum hafa þeir skipað sig bankastjóra í Seðlabankanum, eða fengið samstarfsmenn til þess. Tómas Árnason, Steingrímur Hermannsson og Finnur Ingólfsson frá Framsóknarflokki og Birgir Ísleifur Gunnarsson og Davíð Oddsson frá Sjálfstæðisflokki. Margir eru sannfærðir um að þetta hafi verið og sé röng stefna og hún gangi ekki. Seðlabanki verði að hafa óskorað mannorð og um hann leiki ekki vafi eða efasemdir um ágæti hans og hlutleysi. Seðlabankinn þarf ekki síður á virðingu á að halda en Hæstiréttur.

Mjaltavél handa stjórnmálastéttinni

Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, er einn þeirra sem hafa gagnrýnt Seðlabankann hvað harðast. Hann er langt í frá sá eini sem það gerir. Þorvaldur hefur þetta að segja um Seðlabankann: „Seðlabankinn er og hefur lengi verið mjaltavél handa stjórnmálastéttinni. Að vísu eru ekki mikil brögð að því, að óhæfu fólki sé troðið inn í bankann, enda er starfsliðið þar prýðilegt á heildina litið. Misnotkunin hefur beinzt að yfirstjórninni. Stjórnmálamenn hafa haldið áfram að troða sjálfum sér og hverjir öðrum í bankastjórastöður, og tók steininn úr, þegar Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra, settist sjálfur inn í bankann, þegar hann hafði fengið sig fullsaddan af pólitík og gagnkvæmt. Það hlýtur að vera dýrasta hvíldarinnlögn Íslandssögunnar eins og búið hefur verið að launakjörum hans í bak og fyrir, þótt hann kunni fæst af því, sem seðlabankastjórum er nauðsynlegt að kunna í öðrum löndum. Hann gerðist meira að segja ritstjóri Fjármálatíðinda, elzta og helzta tímarits hagfræðinga á Íslandi, og birti þar meðal annars efnis tæknilega ritgerð um „þvinguð splæsiföll“. Einhver kynni að halda, að „þvinguð splæsiföll“ hljóti að lýsa atbeina bankaráðsins við bankastjórann, svo mjög sem bankaráðið hefur splæst á hann gegn betri vitund og velsæmi. Fjármálatíðindi fóru sömu leið og Þjóðhagsstofnun; þau voru lögð niður. Bankaráð Seðlabankans hefur aldrei breytt neinu nema launum bankastjóranna, ævinlega til hækkunar, og fyrir það þiggja flokksgæðingarnir þar á annað hundrað þúsund krónur á mánuði hver um sig, þar á meðal einn, sem hefur fengið dóma bæði fyrir meiðyrði og ritstuld. Og hagstjórnin? Hvernig er hún? Hún er þannig, að Lehman Brothers, eitt elzta og helzta fjármálafyrirtæki heimsins, spáir því í glænýrri skýrslu, að nær helmingslíkur séu á fjármálakreppu á Íslandi næstu misseri, enda eru flestir mælar rauðglóandi. En bankastjórinn er ólæs á mælana, og enginn þorir að segja honum til.“

Yfirgripsmikilli vanþekking

Þótt hann kunni fæst af því, sem seðlabankastjórum er nauðsynlegt að kunna í öðrum löndum.

Prófessorinn er orðfastur. Fræg voru ummælin um Steingrím Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, þegar hann varð seðlabankastjóri. Steingrímur var sagður búa yfir yfirgripsmikilli vanþekkingu á efnahagsmálum. Þannig að gagnrýni Þorvaldar Gylfason á Davíð Oddsson hefur svo sem áður verið sett fram um forvera hans.

Eftir að Jón Baldvin Hannibalsson sagði, í síðasta tölublaði Mannlífs, að núverandi stjórnendur Seðlabankans hafi fengið næg tækifæri og að skipta þurfi um áhöfn í bankanum hafa aðrir komið á eftir og tekið undir með Jóni. Þeirra á meðal eru Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, og Þorvaldur Gylfason prófessor. Enginn af þeim sem Mannlíf spurði sagðist geta borið traust til Seðlabankans og spár hans næstu misseri er í sjálfu sér fátt annað en mat á hvernig eigin verk munu ganga. Það á að vera dæmi um að störf bankans gagnast ekki sem skyldi. Þorvaldur Gylfason sagði, í samtali við Mannlíf, að Seðlabankinn hefði haft tvö vopn, bindisskyldu og stýrivextina. Í stað þess að hækka bindisskylduna var hún lækkuð og bankarnir bólgnuðu út. Þar með batt Seðlabankinn aðra höndina fyrir aftan bak, sagði Þorvaldur og barðist síðan með annarri hendinni, með stýrivöxtunum án nokkurs árangurs.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: