- Advertisement -

„Fjárhagslegt öryggi tugþúsunda fjölskyldna er fokið út í veður og vind“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins:

„Ég vil kalla þetta illvirki gegn heimilunum“

„Án þess að ávarpa aðfarirnar hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar margir látið hafa það eftir sér að það sé mesta hagsmunamál heimilanna að vinna bug á verðbólgunni. Þeir hafa einnig látið hafa það eftir sér að við séum öll í þessum sama báti saman. Hvorugt er rétt,“ sagí Ásthildur Lóa Þórsdóttir. Flokki fólksins, í umræðu um fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar.

„Í fyrsta lagi eru bátarnir margir með mismunandi farrýmum. Á meðan sumir sigla þetta í lúxus eru aðrir á hriplekum kænum og við það að færast í þrælakistuna. Aðstæður þessara hópa fólks eru á engan hátt sambærilegar. Stærsta hagsmunamál heimilanna er ekki að lækka verðbólguna, þótt það væri vissulega gott. Stærsta hagsmunamál heimilanna er að eiga til hnífs og skeiðar ásamt því að geta greitt af húsnæði sínu. Fæði, klæði, húsnæði eru frumþarfir og stærstu hagsmunamál heimilanna. Með tækjunum sem Seðlabankinn beitir gegn verðbólgunni er verið að svipta heimilin þessum grunnþörfum.“

Ásthildur hélt áfram: „Fjárhagslegt öryggi tugþúsunda fjölskyldna er fokið út í veður og vind. Alveg sama hversu varfærnar þær voru stendur ekkert eftir því að peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ekki hugmyndaflug í annað en að hækka stýrivexti og breyta öllum forsendum heimilisbókhaldsins þannig að engin leið er fyrir heimilin að standa undir sífellt vaxandi greiðslubyrði og höfuðstólshækkunum. Ég vil kalla þetta illvirki gegn heimilunum.“

Aðgerðir gegn verðbólgunni verri en verðbólgan sjálf

Það er verið að búa til langvarandi vanda.

„Ríkisstjórnin, sem ætti að verja þau af öllum mætti, hefur selt þau í hendur bankanna sem þau vænta að muni bjóða upp á lausnir fyrir heimili í vanda, vanda sem er tilbúinn og í boði ríkisstjórnarinnar, vanda sem heimilin ættu ekki að þurfa að standa frammi fyrir. Vandinn er fyrir hendi eingöngu vegna þess að aðgerðirnar gegn verðbólgunni eru svo mikið verri en verðbólgan sjálf. Það er eitt stærsta hagsmunamál heimilanna að hvorki bankar né leigusalar geti hækkað afborganir eða leigu þannig þau standi ekki undir því. Heimilin myndu flest standa undir verðbólgunni því að 10% verðbólga hækkar framfærslukostnað heimilanna um nákvæmlega það, 10%, þannig að 100.000 verða 110.000 og 500.000 verða 550.000. En í staðinn hefur vaxtakostnaður af 40 millj. kr. láni sem var um 130.000 í janúar í fyrra hækkað um 230.000 kr., í 360.000 kr. á mánuði. Vaxtakostnaðurinn hefur sem sagt næstum því þrefaldast. Má ég þá frekar biðja um 10% verðbólguna, því að þetta ráða fáar fjölskyldur við til lengdar.“

Ásthildur Lóa þekkir þessi mál mmjög vel. Lokaorð hennar að sinni eru þessi:

„Það er verið að búa til langvarandi vanda sem mun enda með heimilismissi fyrir þúsundir fjölskyldna. Nú flýr fólk yfir í verðtryggð lán í hrönnum til að forðast að lenda í vanskilum. Léttirinn sem fyrst um sinn fylgir verðtryggðum lánum mun breytast í skelfingu þegar á líður. Þegar þetta verðbólguskeið verður minningin ein fyrir mörg okkar mun verðbólgan fyrst koma af alvöru niður á stórum hluta þeirra sem núna er verið að neyða yfir í verðtryggðu lánin. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í því? Nákvæmlega ekki neitt. Það er ekkert um það í fjárlagafrumvarpinu. Þvert á móti treystir ríkisstjórnin á og og biðlar til bankanna að sýna samningsvilja við þá sem lenda í skuldavanda. Það að ríkisstjórnin skuli vera svo skyni skroppin að hún beini því til bankanna og vænti þess að þeir sýni heimilum í vanda einhvers konar samningsvilja er svo yfirgengilegt að það nær ekki nokkru tali. Fátt sýnir jafn vel í hversu litlum tengslum ríkisstjórnin er við raunveruleikann. Hún hugsar bara um hagtölurnar en ekki um raunveruleikann sem blasir við tugþúsundum. Ég get fullyrt, og vitnað bæði í eigin reynslu og fjölda annarra, að hjá bönkunum er enga miskunn eða samningsvilja að finna. Komi þeir króknum í heimili er það heimili dregið að landi án þess að nokkur velti tvisvar fyrir sér afdrifum þeirra sem fyrir slíkri aðför verða. Rörsýnin er nefnilega ekki bara hjá ríkisstjórninni. Hjá bönkunum heitir þessi rörsýn reyndar arðsemiskrafa fjárfesta og með því að ná henni upp fá þeir hrós úr öllum áttum, líka frá ríkisstjórninni sem ætlar að selja eigin hluti í bönkunum og vill því halda hlutabréfagenginu háu.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: