- Advertisement -

Fjöldi Grindvíkinga sem hefur ekki áhuga á að dvelja í bænum

„Við höfum nú verið nokkrar vikur í þessari ríkisstjórn og við höfum strax tekið, myndi ég segja, málið föstum tökum. Við erum líka að kynna okkur þá anga málsins sem við urðum ekki alveg vitni að vegna þess að það er þannig að þó að þú sért hérna inni þá ertu ekki inni í öllum smáatriðum og við erum að reyna að gera þetta af ábyrgð. Þess vegna höfum við farið í þessa sviðsmyndagreiningu, til að vera viss um að við séum ekki bara að erfa fyrri aðgerðir heldur líka að hugsa fram í tímann og þetta verður allt saman birt.

Við héldum ráðherranefndarfund um samræmingu mála þar sem Grindavík var undir í síðustu viku. Við erum að fara að halda annan slíkan fund á morgun ( í dag) þar sem verða teknar ákvarðanir um í hvaða form húsnæðisstuðningur á að fara og líka hvernig verður horft á bæinn í heild sinni. Í þeirri vinnu sem hefur verið hingað til hefur til að mynda bæjarstjóri Grindavíkur verið að fullu upplýstur og verið þá í stöðu til að upplýsa fólk í kringum sig. En við erum enn þá á ákvarðanatökustigi og ég get farið betur yfir þetta hérna í seinna andsvari,“ sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra þegar hún svaraði fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar. Hann sagði svo:

„Og aftur, það eru 750–800 manns að störfum á hverjum degi. Það eru 120 manns sem búa þarna. Hvað gerist næst? Þetta fólk vill fá að taka þátt, eðlilega. Ekkert án okkar um okkur. Það er bara eðlilegt sjónarmið.“

Kristrún svaraði:

„Það er auðvitað þannig að það eru, eins og háttvirtur þingmaður sagði, yfir 100 manns sem dvelja í bænum. Þú mátt dvelja í bænum. Það er hins vegar þannig að það er fjöldi Grindvíkinga sem hefur ekki áhuga á að dvelja í bænum núna og háttvirtur þingmaður veit jafn vel og ég að það eru mjög skiptar skoðanir eftir því hvern þú talar við frá Grindavík hvort þau vilja flytja aftur til bæjarins eða ekki. En það eru aðilar sem búa þarna, það eru aðilar sem eru með lögheimili þarna og þeir hafa frelsi til að gera það. Háttvirtur þingmaður veit líka jafn vel og ég að við sem berum ábyrgð á almannaöryggi þurfum að tryggja að það séu eðlilegar aðstæður áður en allt er opnað upp á nýtt og það er bara mjög mikil ábyrgð að bera.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: