- Advertisement -

Fjórðungur á erfitt með að ná endum saman / róðurinn mun enn þyngjast

„Til hvers var ákveðið að búa til sérstakan vinnumarkaðsráðherra ef hann getur ekkert gert fyrir launafólk í landinu? Var það kannski, eins og svo margt með þessa ríkisstjórn, bara uppi á punt? Ég spyr í einlægni, forseti, vegna þess að staðan er mér óskiljanleg.“
Ljósmynd: Rúv.

„Í nýrri könnun Vörðu um stöðu launafólks á Íslandi, sem lögð var fyrir félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB, kemur fram að um fjórðungur launafólks eigi erfitt með að ná endum saman. Fjórðungur kvenna á vinnumarkaði býr við slæma andlega heilsu. Fimmtungur launafólks getur ekki mætt óvæntum útgjöldum. Fjárhagsleg staða atvinnulausra og heilsa þeirra er verri en launafólks og staða innflytjenda er verri en innfæddra á öllum mælikvörðum,“ sagði Halldóra Mogensen á Alþingi.

„Nú í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og þeirra samfélagslegu takmarkana sem gripið var til vegna faraldursins stefnir í tímabil mikillar þenslu og verðbólgu, bæði hér á landi og á heimsvísu. Horfur í efnahagslífinu benda til þess að róður verst settu hópanna muni þyngjast enn frekar og þrengja að lífsskilyrðum þeirra. Leiguverð er að hækka, matarkarfan er að hækka, bensín er að hækka. Nú verður að grípa til aðgerða strax til að koma í veg fyrir vaxandi vanda inn í framtíðina sem verður okkur dýrkeyptur, ekki bara í peningum heldur mannlegum harmleik sem bergmálar í gegnum næstu kynslóðir,“ sagði Halldóra.

„Það er mikilvægt, nú sem aldrei fyrr, að ríkisstjórnin sé afar skýr með hverjar fyrirætlanir hennar eru. Hvað ætlar hún að gera til að vernda hag heimila og fjölskyldna? Það bólar ekki á neinum aðgerðum á þeim bænum og þegar félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra er spurður til hvaða aðgerða hann ætli að grípa þá ber hann fyrir sig getuleysi vegna þess að helstu málaflokkarnir sem koma vinnumarkaðnum við heyri ekki undir hann,“ sagði Halldóra og endaði með þessum orðum:

„Til hvers var ákveðið að búa til sérstakan vinnumarkaðsráðherra ef hann getur ekkert gert fyrir launafólk í landinu? Var það kannski, eins og svo margt með þessa ríkisstjórn, bara uppi á punt? Ég spyr í einlægni, forseti, vegna þess að staðan er mér óskiljanleg.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: