- Advertisement -

Gunnar orðuhafi

Það var 11. maí 1987 sem ég hitti hinn fína vin minn, Gunnar V. Andrésson ljósmyndara, í fyrsta sinn. Auðvitað vissi ég af Gunnari áður, hann var þá þegar orðinn þekktur af störfum sínum.

Þennan dag hóf ég störf á DV í fyrsta sinn, hafði reyndar verið fréttaritari fyrir blaðið, en þennan dag mætti ég til starfa í Þverholt 11. Á ritstjórninni var margt fínt fólk sem gaman var að kynnast. Fáum kynntist ég betur en Gunna. Eðlilega.

Hér og þar er hægt að sjá hversu góður ljósmyndari Gunni var, og er. Það þarf margt að fara saman til að geta áratugum saman tekið bestu myndirnar, eða allavega með þeim bestu. Það getur og gerir Gunni.

Samt sést það ekki beint í myndunum hver ljósmyndarinn er. Eða hvernig hann er. Gunnar V. Andrésson hefur fallegri og áreynslulausari framkomu en annað fólk, flest ef ekki allt.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það var mér, óreyndum blaðamann í maí 1987, mikilsvert að hafa fengið að starfa með Gunna, fara með honum á fréttavettvang þar sem glímt var við ólík mál, stundum sorg og stundum gleði. Og reyndar allt þar á milli. Þá skipti alltaf miklu að vera samferða manni sem kunni að nálgast fólk. Á forsendum þess.

Gunni miðlaði af reynslu sinni. Ekki með látum eða frekju. Nei, með vinsamlegum ábendingum, vináttu og næmni.

Síðar átti ég þess kost að ráða Gunnar í vinnu. Það gerði ég vegna þess að ég vissi að þar fengi ég besta ljósmyndarann til starfa og það sem einnig vóg þungt, þá fengi ritstjórnin sinn heppilegasta fullrúa. Það var alltaf gott að vita af Gunna á vettvangi. Hann er ekki bara sjálfum sér til sóma. Gunni er stærri en það, hann er öllum til sóma.

Ég er sannfærður um að ekki bara ég, heldur margir aðrir samstarfsmenn Gunna, hafa heiðrað hann í huganum og hengt á hann þannig fínustu orður sem til eru. Nú hefur forseti Íslands heiðrað hann formlega. Það er vel við hæfi. Fáir eru betur að því komnir en Gunnar Valberg Andrésson, sjálfur GVA.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: