- Advertisement -

Hvaða erindi eiga Vinstri græn?

Vinstri græn hafa valdið miklum vonbrigðum. Þátttaka þeirra í ríkisstjórinni mun marka skil í starfi flokksins. Fylgið hrynur af þeim og formaðurinn og forsætisráðherra segist ekki taka áföllunum persónulega.

„Ég átti nú von á því þegar við fórum í þessa umdeildu ríkisstjórn að okkar fylgi myndi minnka við það. Það hefur gert það,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra forsætisráðherra í viðtali við Rúv. Hún sagði flokkinn ætla að halda áfram að sinna erindi sínu.

„Viðskila við réttlætið“

En hvert er erindi Vinstri grænna, hvers var að vænta af þeim?

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Það er á svona stundum sem almenningur upplifir það að kerfið hafi orðið viðskila við réttlætið, kerfið sem við höfum byggt upp saman og á að snúast um að tryggja jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu, að menntun, að innviðum; að þetta kerfi hafi orðið viðskila við réttlætið. Þá skiptir máli að við sem erum í stjórnmálunum, tökum þátt í stjórnmálum dagsins í dag, horfumst í augu við það hvað við getum gert til að leiðrétta þetta ranglæti,“ sagði Katrín áður en hún settist í hina umdeildu ríkisstjórn.

„Þess vegna erum við hér“

Svandís Svavarsdóttir, sem eflaust er næstráðandi í flokknum, var borubrött í uppafi stjórnarsamstarfsins og sagði þá:

„Það er stundum talað um að við séum ekki að stuðla að kerfisbreytingum í þessari ríkisstjórn. Það er rangt. Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngunum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna í landinu. Það er búið að rétta efnahagslífið við eftir hrunið. Eftir standa innviðirnir, margir hverjir vanræktir til langs tíma. Viðfangsefnin eru alls staðar. Þess vegna erum við hér.“

Þvílíkt og annað eins. Kerfið er allt að hrynja. Ömurlegar fréttir af veiku og þjáðu fóki koma fram hvern dag. Svandís?

VG spilar varnarleik

Í viðtalinu vi Rúv sagði Katrín: „En ég hef hins vegar þá trú að við eigum alveg eftir að ná góðum árangri sem muni skila sér í auknu fylgi þegar líður á kjörtímabilið.“ Það er bara ekki nokkur leið til að Katrín trúi þessum orðum sínum, hvað þá annað fólk. Það er ekkert, nákvæmlega ekkert, sem bendir til að flokkurinn sjái fram á að spila sóknarleik. Það er sótt að honum allsstaðar frá. Ekki síst frá meintum samstarfsflokki, Sjálfstæðisflokknum.

Ægivald Bjarna Benediktssonar virðist algjört. Eitt sinn átti fátækt fólk von í Katrínu. Hún vakti von margra þegar hún sagði: „Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu. Núverandi áætlanir ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir því að að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör.“

Þetta var fyrir um einu ári síðan. Eftir að hafa lesið muninn á þá og nú í lífi Vg er spurt, hvaða erindi eiga Vinstri græn?

Sigurjón M. Egilsson.

Katrín Jakobsdóttir:  „Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: