- Advertisement -

Íslenska góðærið, hvar er það?

Á sama tíma og ráðherrar segja ekki unnt að reisa við heilbrigðiskerfið af nægum krafti, að ekki sé hægt að leggja vegi eða byggja brýr nema rukka sérstaklega þau okkar sem aka þá vegi, að ekki sé hægt að sinna eftirspurn eftir menntun, allt vegna þess að peninga vanti, sitja mestu reikningsmenn Íslands og niðurstaða þeirra er sú, að frá því í apríl 2014, það er í þrjú heil ár, hefur verið afgangur af viðskiptum Íslands og annarra landa. Alls höfum þénað 405 milljarða umfram það sem við höfum borgað til annarra. 405 milljarðar í plús.

Þrátt fyrir allan ávinninginn, sem að mestu kemur vegna erlendra ferðamanna, er látið sem ekki séu til peningar fyrir grunnþörfum samfélagsins. Ja, ljótt er ástandið í miðju góðærinu.

Á síðasta ársfjórðungi var afgangur, af viðskiptum við útlönd, rúmir ellefu milljarðar, sem er nokkru minni afgangur en á sama tíma í fyrra. En góður afgangur samt.

Þetta var semsagt tólfti ársfjórðungurinn í röð sem viðskiptajöfnuður hefur verið jákvæður, en seinast mældist halli á viðskiptajöfnuði á 1. ársfjórðungi 2014. Heildarafgangur á þessum þremur árum er 405 milljarða króna.

Þú gætir haft áhuga á þessum

En hvar er góðærið að finna? Í Seðlabankanum. Hann hefur byggt upp myndarlegan gjaldeyrisforða, en alls hefur bankinn keypt evrur fyrir 800 milljarða. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er 580 milljörðum hærri en allar skuldir ríkissjóðs.

Svo verður hvert og eitt okkar að gera upp við sig hvort allir þessir peningar, allar þessar tekjur séu ekki betur komnar í kjallara Seðlabankans en t.d. í að byggja upp og bæta, til að mynda heilbrigðiskerfið.

Það er nú það.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: