- Advertisement -

Katrín segir nei við rannsókn á þegar 15 þúsund fjölskyldur misstu heimili sín

„Ég tel að stjórnkerfið og þingið hafi staðið sig vel í því að vinna úr þeim ábendingum sem þar komu fram.“

Katrín Jakobsdóttir.

„Ég geri fastlega ráð fyrir því að forsætisráðherra viti muninn á ráðherraskýrslu og rannsóknarskýrslu Alþingis. Það er ekki það sama, alveg langt því frá og það hlýtur að þurfa að gera rannsóknarskýrslu Alþingis um hvernig fór fyrir 15.000 heimilum, þó ekki væri nema til að hrekja málflutning okkar sem vitum hvernig þetta var,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna.

„Það er bara risastórt réttlætismál að farið verði yfir hvernig það hreinlega gat gerst að stjórnvöld, dómstólar, sýslumenn og fleiri aðilar, ásamt bönkunum, tækju sig saman um að brjóta bara hreinlega lög og réttindi, mannréttindi, á neytendum í landinu. Þetta var ofbeldi og fjárhagslegt ofbeldi er ofbeldi. Það verður að fara yfir hvernig þetta gat gerst og koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Það er ekki endalaust hægt að segja við heimilin sem urðu fyrir þessu ofbeldi að þau hafi bara verið í allt of stuttu pilsi,“

„Ég tek hvorki undir myndlíkinguna né þá mynd sem dregin var upp í þessari fyrirspurn háttvirts þingmanns og er hreinlega ekki sammála henni,“ svaraði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

„Háttvirtur þingmaður er hins vegar að spyrja mig hér um rannsóknarskýrslu Alþingis og það er auðvitað ekki mitt að taka ein ákvörðun um slíkt. Það er bara ákvörðun sem Alþingi tekur. Ég get hins vegar lýst þeirri skoðun minni sem þingmaður, eins og háttvirtur þingmaður, og við erum jú öll með eitt atkvæði í þessum sal ef slík tillaga kæmi til afgreiðslu, að ég tel og ítreka það að Alþingi Íslendinga hafi staðið sig vel í því að gera upp hrunið. Ég tel að rannsóknarskýrsla Alþingis hafi birt mjög greinargóða mynd af aðdraganda hrunsins og ég tel að stjórnkerfið og þingið hafi staðið sig vel í því að vinna úr þeim ábendingum sem þar komu fram,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: