- Advertisement -

Katrín: „Það þarf ríkisstjórn sem…“

„...umhverfi fyrir samfélagsbanka sem hafa önnur markmið en eingöngu gróða fyrir hluthafa, til að mynda umhverfissjónarmið, byggðasjónarmið og kynjasjónarmið.“

„Það þarf ríkisstjórn sem er tilbúin að endurskoða fjármálakerfið, aðskilja fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi og tryggja umhverfi fyrir samfélagsbanka sem hafa önnur markmið en eingöngu gróða fyrir hluthafa, til að mynda umhverfissjónarmið, byggðasjónarmið og kynjasjónarmið.

Það þarf ríkisstjórn sem vill byggja upp háskólastarfsemi og rannsóknir, nýsköpun og þekkingariðnað, tryggir öllum menntun við hæfi og gjaldfrjálst opinbert heilbrigðiskerfi þannig að tekjulágt fólk þurfi ekki, í þessu ríka landi sem við búum á, að fresta því að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Ríkisstjórn sem tryggir öllum framfærslu sem stendur undir góðu lífi á Íslandi, sem vinnur að því að uppræta skort og fátækt í samfélaginu.

Ríkisstjórn sem leggur áherslu á að útrýma mansali og nútímaþrælahaldi, er reiðubúin að berjast gegn kynbundnum launamun hvar sem hann birtist, grípur til raunverulegra aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi og er reiðubúin að setja fjármagn í þær aðgerðir.

Ríkisstjórn sem tryggir aukin völd almennings og horfist í augu við kröfuna um aukna þátttöku almennings í öllum ákvörðunum.

Ríkisstjórn sem kemur endurskoðun stjórnarskrárinnar í höfn þannig að hún verði sannanlega stjórnarskrá fólksins.

Það þarf ríkisstjórn sem tryggir að allir á Íslandi sitji við sama borð, njóti sömu tækifæra og vinnur um leið með alþjóðasamfélaginu að auknum jöfnuði í heiminum og tekst á við alþjóðlegar áskoranir með því að ganga á undan með góðu fordæmi.“

Afhjúpanir Panama-skjalanna hafa rifjað upp fyrir okkur með áþreifanlegum hætti að fjármálakerfið sem byggt var upp fyrir hrun af nýfrjálshyggjuöflunum, núverandi stjórnarflokkum, lifði hrunið af. Hér á landi er fámennur hópur sem tók þátt í því að nýta sér aflandsfélög í skattaskjólum til að geyma peninga sína. Þessi félög lúta ekki sömu reglum og við setjum okkar eigin viðskiptalífi og samþykkjum á Alþingi Íslendinga. Afhjúpanir Panama-skjalanna hafa sýnt okkur með áþreifanlegum hætti misskiptinguna í samfélaginu, hvernig sumir hafa fjármagn sem þeir geta nýtt til að spila á öðrum leikvelli en okkur hinum er ætlaður. Panama-skjölin afhjúpuðu fyrir okkur að á Íslandi búa tvær þjóðir.“

Úr þingræðu Katrínar Jakobsdóttir síðla vetrar 2016. Katrín var þá í stjórnarandstöðu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: