- Advertisement -

„Kemur mér svo sem ekkert á óvart að fá aðra eins hrákaslummu hérna í andlitið“

Bankarnir mergsjúga samfélagið eins og við vitum og græða á tá og fingri á því hræðilega ástandi sem okurvextirnir og verðbólgan eru að skapa í samfélaginu.

Inga Sæland.

„Ég verð að segja það, frú forseti, ég átta mig engan veginn á því hvers vegna í ósköpunum við sækjum ekki þetta fé, ég bara átta mig engan veginn á því. Ég skil ekki hvernig stendur á því. Hérna megin erum við að selja banka eins og það hefur gengið þokkalega fyrir sig eða hitt þó heldur, erum að taka inn einskiptisfjármuni í ríkissjóð þar sem hæstv. fjármálaráðherra er óþreytandi að tala um hversu vel það fjármagn nýtist og hversu frábært það sé að fá þarna inn t.d. 53 milljarða kr. eingreiðslu. Þetta er einskiptisaðgerð, við erum ekki að fá þessa peninga árlega. Við erum að selja frá okkur gullgæsina. Við erum að selja frá okkur bankana sem eru að skila okkur alveg ómældum og ótrúlegum arði inn í ríkissjóð, enda eru þeir að mergsjúga samfélagið eins og við vitum og græða á tá og fingri á því hræðilega ástandi sem okurvextirnir og verðbólgan eru að skapa í samfélaginu. Hvers vegna í ósköpunum skyldum við ekki einfaldlega afnema þessa undanþágureglu og helst strax í gær eða fyrir þessum fimm árum þegar við byrjuðum í Flokki fólksins að mæla fyrir þessari þingsályktunartillögu? Ég næ ekki utan um það hvers vegna þessu er ekki fylgt eftir. Ég næ ekki utan um það hvers vegna við viljum ekki taka inn tugi milljarða á hverju einasta ári í staðgreiðslu frá sjóðunum,“ sagði Inga Sæland á Alþingi.

Óli Björn Kárason svaraði Ingu og sagði meðal annars:

„Nú er þessi tillaga sem við fjöllum um hér til umfjöllunar í fimmta skipti, ef ég fer rétt með, þannig að það hefur gefist nægur tími fyrir flutningsmenn að átta sig á áhrifum þessarar tillögu ef hún verður samþykkt og fjármálaráðherra leggur fram frumvarp eins og lagt er til hér í þingsályktunartillögunni, áhrifum á íslenskt launafólk. Því spyr ég háttvirtan flutningsmann, háttvirtan þingmann Ingu Sæland: Hvaða áhrif hefur þessi breyting á lífeyrisréttindi meðallaunamanns ef við miðum við 30 ára starfsævi eða 40 ára starfsævi? Eftir fimmtu tilraun þá hlýtur háttvirtur flutningsmaður að hafa áttað sig á því að einhver áhrif hefur þetta á lífeyrisréttindi launafólks. Því spyr ég: Hver eru þau, háttvirtur þingmaður?“

…hvað ég á að segja við háttvirtan þingmann eftir þessa eldræðu.

„Hvaða áhrif hefur það á launafólk? Það hlýtur náttúrlega að vera háð því hvað launafólk hefur í tekjur. Mér skildist að háttvirtur þingmaður væri að tala um meðallaunafólk, þá sem væru með svona meðallaun. Þau áhrif eru í rauninni engin. Það hlýtur algerlega að liggja í því hvernig gengur að ávaxta fjármunina,“ svaraði Inga Sæland og hélt áfram:

„Hver einasti einstaklingur sem ég hef talað við hefði frekar viljað greiða skattinn sinn við innborgun í lífeyrissjóðina en við útborgun. Ég spyr háttvirtan þingmann á móti: Hefurðu spurt einhvern meðallaunamann um það hvort hann hefði ekki frekar viljað vera laus við skattgreiðsluna þegar hann var að fá þessa hungurlús sína út úr lífeyrissjóðunum?“

Þá steig Óli Björn á ræðustól og sagði:

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja við háttvirtan þingmann eftir þessa eldræðu. Staðreyndin er sú að ef fallist verður á þessa tillögu þá mun íslenskt launafólk ekki njóta þeirrar ávöxtunar sem felst í skattfrestuninni. Og nú ætla ég að upplýsa hv. þingmann: Lífeyrisréttindi meðallaunamanns sem er á vinnumarkaði í 40 ár, miðað við 3,5% lágmarksávöxtun lífeyrissjóðanna í þessi 40 ár, verður 50 milljónum lakari en hún væri annars samkvæmt núverandi kerfi. Það mun kosta hann 50 milljónir í verri lífeyrisréttindi, hann á eftir að greiða skatt af því, en hann hefur notið ávöxtunar af þessari skattfrestun í 40 ár, sem Flokkur fólksins ætlar að svipta viðkomandi.“

Ingu var ekki skemmt:

…bein árás á íslenskt launafólk…

„Ég þakka háttvirtum þingmanni, Óla Birni Kárasyni, fyrir síðara andsvar. Afskaplega sem honum var mikið niðri fyrir. En það kemur mér svo sem ekkert á óvart að fá aðra eins hrákaslummu hérna í andlitið á manni eins og frá háttvirtum þingmanni, enda í takti við það sem hans stjórnmálaflokkur er að boða. Að ætla að gera lítið úr 100 milljörðum kr. árlega inn í ríkissjóð og hvaða hagsmuni það myndi í rauninni geta verndað hjá íslenskum almenningi sem millitekjufólki — ég á ekki eitt einasta orð. Mér er í rauninni algerlega misboðið með þennan málflutning; að tala um að þetta sé árás. Og ég stend hér sem formaður Flokks fólksins, stolt af því að vilja verja lífeyrisréttindi þannig að fólk fái að njóta þess á meðan það er enn þá við þokkalega fulla heilsu. Ég veit ekki betur en að það kæmi öllum betur.“

„Ég er ekki vanur því, frú forseti, að fara með stóryrði hér í ræðustól líkt og margir aðrir, en ég ætla að halda því fram að þessi tillaga, nái hún fram að ganga — og ég vona svo sannarlega að efnahags- og viðskiptanefnd taki hana til efnislegrar umfjöllunar og að meiri hlutinn leggi til að hún verði felld hér í þingsal, vegna þess að þetta er bein árás á íslenskt launafólk, einhver mesta og grimmasta árás sem ég hef upplifað hér í þessum þingsal, allt í nafni Flokks fólksins,“ sagði Óli Björn.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: