- Advertisement -

Lánakjör: Snjóhengjan brestur á næsta ári

„Sjálfstæðisflokkurinn talaði um lægstu vexti í sögunni í síðustu kosningabaráttu. Þessir lægstu vextir sögunnar stóðu í einhverja fjóra mánuði.“

Það er staðreynd að íslenska krónan vinnur gegn íslenskum heimilum í þessu ástandi.

„Hversu mörg heimili standa óvarin þegar stýrivextir eru hækkaðir? Ég leitaðist við að fá þessu svarað frá Seðlabankanum á fundi fjárlaganefndar í haust því það skiptir máli að við vitum hvaða hópur þetta er og hversu viðkvæmur hann stendur. Hvert er hlutfall verðtryggðra fasteignalána og óverðtryggðra lána hins vegar? Svör Seðlabankans sýna að rúmur fjórðungur lántakenda er með óverðtryggð lán með breytilega vexti, 26,9%. Það eru heimilin sem hafa tekið á sig vaxtahækkanir af fullum þunga. Á næsta ári bætast svo við 4.451 heimili með fasta vexti sem losna á næsta ári. Þá brestur sú snjóhengja,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir á Alþingi. „Svo er að sjá hver fjöldi lántaka er sem losnar undan föstum vöxtum eftir 12 og 24 mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn talaði um lægstu vexti í sögunni í síðustu kosningabaráttu. Þessir lægstu vextir sögunnar stóðu í einhverja fjóra mánuði. Á dagatali fasteignamarkaðarins er þetta sögulega lágvaxtaskeið kannski á pari við sterkt þriðjudagstilboð, vissulega ánægjulegt en breytir engu í stóra samhenginu,“ sagði Þorbjörg Sigríður..

„Við í Viðreisn höfum bent á stórt hlutverk ríkisstjórnarinnar í baráttunni við verðbólguna. Þegar ríkisstjórnin skilar ekki sínu hlutverki þá neyðist Seðlabankinn til að gefa í með vaxtahækkanir. Ríkisfjármálin eiga að styðja við Seðlabankann en gera það ekki. Þau skila fjárlögum með 119 milljarða halla. Það er staðreynd að íslenska krónan vinnur gegn íslenskum heimilum í þessu ástandi. Það er af ástæðu að vextir hafa hækkað margfalt á við önnur ríki í Evrópu. Ástæðan er ekki sú að verðbólgan hér sé meiri en annars staðar heldur gjaldmiðillinn. Það fer að verða rannsóknarefni hversu meðvirk við ætlum að vera með krónunni eða hvort við séum sem samfélag að nálgast það að geta tekið erfitt samtal um krónuna, hvort við getum varið það að láta heimilin taka á sig þennan kostnað vegna krónunnar.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: